Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir í samtali við Viðskiptablaðið að setning neyðarlaganna hafi verið nauðsynleg:

,,Menn skulu hyggja að því að ástæðan fyrir neyðarlögunum var sú að varna því að allt færi í strand og koma í veg fyrir að greiðslukerfið hryndi hjá okkur. Það hefði haft í för með sér að fólk hefði ekki getað millifært neitt í heimabanka sínum og fólk hefði ekki fengið greidd laun. Það hefði ekki verið hægt að greiða neina reikninga hér innan lands og búðir hefðu þurft að loka.”

Árni sagði að fólk gerði sér  almennt ekki grein fyrir því hvað ástandið hefði getað orðið alvarlegt ef þetta hefði gerst og hann sagðist ekki sjá annað en að erlendu kröfuhafarnir gerðu sér grein fyrir alvarleika málsins þegar það sé útskýrt fyrir þeim. ,,Fólk virðist líta á það sem jafn sjálfsagaðan hlut og að sólin komi upp á morgnanna að þeir geti borgað í sínum netbanka. Þetta er gríðarlegt kerfi og skilanefndirnar, ásamt Seðlabankanum, eyddu gríðarlegum tíma til að byrja með til í að tryggja þetta.”

- Þú metur því neyðarlögin nauðsynleg?

,,Algerlega því hin valkosturinn var að gera ekki neitt og láta bankana fara á hausinn. Þá hefði tjónið hér innanlands orðið gríðarlegt og algert stjórnleysi. Það hefði haft í för með sér að það hefði verið en minna til skiptanna fyrir kröfuhafa. Það var því afrek að halda þessu gangandi. Við sáum hvað gerðist þegar erlenda greiðslukerfið hökti. Það stoppaði aldrei en hökti verulega.

- Nú virðast einhverjir kröfuhafar vilja fá neyðarlögunum hnekkt?

,,Það eiga allir rétt á því að láta á þetta reyna en ef menn skoða hverjir voru valkostirnir í stöðunni. Það hve staðan var þröng hefur hins vegar ekki verið borið nægilega á borð fyrir almenning. Ef bankakerfið fellur einu sinni niður er gríðarlegt mál að koma því upp aftur.”

Að sögn Árna er mikilvægt að ríkið skuli hafa opnað á þann möguleika að erlendir kröfuhafar geti eignast hlut í nýjum banka. Þannig sé tryggt að hagsmuna þeirra sé gætt.