"Ég átti spjall við Hallgrím Geirsson [framkvæmdastjóra Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins] í síðustu viku. Við spjölluðum saman um daginn og veginn og ég ætla ekki að upplýsa meira um það," segir Árni Hauksson forstjóri Húsasmiðjunnar í Viðskiptablaðinu í dag en hann er jafnframt hluthafi í Norðurljósum og stjórnarmaður í Frétt, útgáfufélagi Fréttablaðsins og DV.

Í Viðskiptablaðinu í dag er umfjöllun þar sem bent er á að sterkur orðrómur kviknaði um síðustu helgi þess efnis að Árni hefði rætt við forsvarsmenn Árvakurs um möguleg kaup á ráðandi hlut í félaginu. Spurður um hvort hann hafi nefnt slík kaup á fundi þeirra Hallgríms segist Árni ekki vilja tjá sig um efni samtalsins. Hins vegar hafi hvorki hann né nokkur á hans vegum gert tilboð í hlutafé í Árvakri.

Eins og gefur að skilja þættu það mikil tíðindi ef sömu aðilar -- eða í öllu falli tengdir aðilar -- réðu öllum þremur dagblöðum landsins. (Auk tengsla Árna við Norðurljós og Frétt tók Baugur þátt í kaupum hans á Húsasmiðjunni fyrir tæpum tveimur árum og á 45% hlut í Eignarhaldsfélagi Húsasmiðjunnar.) Árni er spurður hvort hann hafi áhuga á kaupum á hlutafé í Árvakri og svarar: "Eins og aðrir fjárfestar hef ég alltaf áhuga á góðum tækifærum. Svo verða menn að meta hvort Árvakur er gott tækifæri eða ekki."

Árni hefur áður komið að rekstri fjölmiðla því að hann var fjármálastjóri og svo aðstoðarframkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar frá vorinu 1996 fram í ársbyrjun 2000. Á þeim tíma gaf félagið út DV, Dag og Tímann.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.