Fjármála- og efnahagsráðherra hefur með bréfi dagsettu 12. apríl 2013 skipað Arnór Sighvatsson á ný í starf aðstoðarseðlabankastjóra. Skipunin gildir til fimm ára frá og með 1. júlí 2013.

Arnór Sighvatsson var fyrst settur í starf aðstoðarseðlabankastjóra 27. febrúar 2009 til bráðabirgða og svo skipaður til fjögurra ára frá og með 1. júlí 2009.

Samkvæmt lögum er ráðherra aðeins heimilt að skipa sama mann aðstoðarseðlabankastjóra tvisvar sinnum. Skipunartími framlengist sjálfkrafa ef starf er ekki auglýst sex mánuðum áður en fyrri skipunartími rennur út, sem var í tilviki aðstoðarseðlabankastjóra við síðustu áramót, að því er segir í frétt á vefsíðu Seðlabankans..

Arnór Sighvatsson lauk doktorsprófi í hagfræði frá Northern Illinois University árið 1990. Hann hóf störf í Seðlabanka Íslands árið 1990, var aðalhagfræðingur og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs frá árinu 2004 og settur aðstoðarseðlabankastjóri í febrúar árið 2009.