*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 10. september 2014 11:12

Arnór: Leiðari Fréttablaðsins ósanngjarn

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir stjórnsýsluhætti í Seðlabankanum vandaða.

Ritstjórn
Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, skrifaði grein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann gerði athugasemdir við leiðaraskrif í Fréttablaðinu um framkvæmd gjaldeyriseftirlits.

Viðskiptaráð Íslands sendi fjármálaráðherra og umboðsmanni Alþingis bréf í síðustu viku með ábendingum um umbætur á stjórnsýsluháttum Seðlabanka Íslands. Fréttablaðið birti svo leiðara þann 5. september síðastliðinn þar sem fram kom það sjónarmið höfundar að Ísland svipi að mörgu leyti til þriðja heims ríkja varðandi skilvirkni viðskiptaumhverfisins.

Sagði meðal annars í leiðaranum að ógagnsæi og ójafnræði einkenndu ákvarðanatöku gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og ákveðnir ráðgjafar fengju, í gegnum tengsl sín við bankann, skjótari og hagstæðari úrlausn mála sinna.

Arnór segir í grein sinni að þessi fullyrðing sé ósanngjörn og ósönn. „Í fyrsta lagi er ósanngjarnt og villandi að gefa sér að starfshættir seðlabanka í þriðja heiminum séu almennt slæmir. Í öðru lagi er staðhæfing um að slík lýsing eigi við um Seðlabanka Íslands ósanngjörn, ósönn og órökstudd. Höfundur vitnar í bréf Viðskiptaráðs, þar sem vísað er í ónafngreinda heimildarmenn, en virðist ekki gera ráð fyrir að fullyrðingar þeirra geti verið rangar eða byggðar á misskilningi, né virðist höfundur hafa reynt að grafast fyrir um sannleiksgildi þeirra. Seðlabankinn hefur sjálfur reynt að afla upplýsinga um málsatvik sem gætu varpað ljósi á tilefni þessara fullyrðinga, m.a. hjá Viðskiptaráði, en fátt var um svör. Seðlabankanum er mikið í mun að bæta stjórnsýslu þar sem hnökra er að finna, en án upplýsinga um málsatvik er bankanum vandi á höndum.“

Arnór heldur því fram í grein sinni að Seðlabankinn vandi ávallt til verka við afgreiðslu umsókna um undanþágu frá fjármagnshöftum. Segir hann jafnframt að ítarleg úrvinnsla málanna hjá Seðlabankanum leiði þó stundum til þess að afgreiðslutími verði lengri en æskilegt er út frá öðrum sjónarmiðum.

Að lokum segir Arnór: 

„Seðlabankinn mun áfram leggja sig fram við vandaða stjórnsýsluhætti og bæta þá ef hægt er. Ég vænti þess að ritstjórar Fréttablaðsins leggi sig einnig fram um að gæta þess framvegis að vanda sig við frétta- og leiðaraskrif.“