Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, segir ekki raunhæft að lækka vexti verulega við núverandi aðstæður til að létta undir með fyrirtækjum og heimilum og fjármögnun ríkisins. Það verði að byggja upp hvata til að til að eiga krónur svo hægt verði að afnema núverandi höft.

„Ef við lítum á efnahagsaðstæður innanlands, þá er vissulega ekkert tilefni til að vextirnir séu hér hærri en í flestum okkar nágrannalanda. Hins vegar er það svo að við erum með gjaldmiðil sem á undir högg að sækja,” segir Arnór.

„Jafnvel þó við séum með höft sem koma í veg fyrir að erlendir aðilar taki til fótanna sem hér hafa talsverða stöðu í innlendum eignum, í krónum, þá hafa vextirnir samt sem áður áhrif á hvata til þess að fara í kringum höftin. Þeir hafa t.d. áhrif á hvata útflytjenda til að breyta gjaldeyristekjum sínum yfir í krónur. Hvortveggja hefur áhrif á gengi krónunnar.

Að auki þá stefnum við að því að afnema þessi höft. Þegar við afnemum höftin þá verður vaxtastigið hér innanlands að taka mið af umtalsverðu áhættuálagi á innlendar eignir. Það áhættuálag hefur að vísu verið að lækka þannig að þegar fram líða stundir gætu skapast skilyrði fyrir því að afnema höft af einhverjum þessara eigna án þess að það skapi verulegan óróa. Jafnvel þó að vaxtamunurinn sé eitthvað minni en hann er í dag.

Við verðum að horfa fram til þess tíma sem við ætlum að afnema þessi höft, þannig að það sé nægilegur hvati til að eiga eignir í krónum.

Hvað varðar hagsmuni innlendra aðila, bæði heimila og fyrirtækja, þá eru mikilvægustu hagsmunir þessara aðila að krónan haldist stöðug. Skuldir eru að stórum hlut annað hvort bundnar erlendum gjaldmiðlum eða neysluvöxtum. Það þýðir að mikilvægasti þáttur velferðar þessara aðila er að halda genginu stöðugu,” sagði Arnór Sighvatsson.