Gjaldeyrishöft verða ekki afnumin að fullu fyrr en traust hefur verið endurvakið í þeim mæli að langvarandi óstöðugleiki fylgi ekki afnámi haftanna.

Þetta sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, í erindi sínu á morgunfundi Íslenskra verðbréfa í morgun.

Arnór sagði að fjármálakerfið væri nú í betri stöðu til að standast sviptingar í lausafjárstöðu sem gætu fylgt afnámi hafta en fyrir nokkrum mánuðum. Eftir síðasta dóm Hæstaréttar hafi stórum áhættuþætti verið aflétt, sem gerði erfitt um vik að meta lausafjárstöðu bankanna.

Þá minnti Arnór á að samkvæmt viljayfirlýsingu stjórnvalda mun Fjármálaeftirlitið yfirfara áætlanir bankanna til að mæta áhrifum dómsins fyrir 15. nóvember. Áhættan sem eftir stendur tengist einkum krónuinnstæðum erlendra banka og innstæðum gömlu bankanna.

„Áður en höftin eru afnumin að fullu hvað varðar þessar innstæður þyrfti að binda eins mikið og hægt er af þessu fjármagni til lengri tíma og skipuleggja uppgjör gömlu bankanna þannig að það raski ekki jafnvægi á gjaldeyrismarkaði,“ sagði Arnór í erindi sínu.

Þá sagði Arnór að tilvist gjaldeyrishafta, en jafnframt fyrirhuguð losun þeirra, setti peningastefnunefnd Seðlabankans og þá sem eiga viðskipti á skuldabréfamarkaði í nokkurn vanda. Þegar höftin hverfi þurfi áhættuleiðréttur vaxtamunur milli Íslands og viðskiptalandanna að vera nægur til þess að krónueignir geti talist viðunandi fjárfestingarkostur í samanburði við aðrar eignir.

„Á hinn bóginn eru sterk rök fyrir verulegri lækkun vaxta, að því gefnu að gjaldeyrishöft dugi til að halda gengi krónunnar stöðugu,“ sagði Arnór.

„Hvert sé æskilegt vaxtastig á hverjum tíma ræðst því m.a. af því hvenær byrjað verður að losa um höftin. Bæði markaðsaðilar og peningastefnunefndin standa frammi fyrir óvissu um það hvenær og í hvaða áföngum hægt er að losa um höftin. Það er í anda gagnsærrar framkvæmdar peningastefnu að peningastefnunefndin geri grein fyrir því hvernig þessi óvissa hefur áhrif á ákvarðanir hennar.“

Arnór sagði einnig að ein af forsendum þess að hægt sé að losa höftin án þess að það valdi óstöðugleika er að viðunandi jafnvægi sé í utanríkisviðskiptum Íslands og helst afgangur. Þetta skilyrði sé nú þegar til staðar í þeim mæli að Seðlabankinn hafi hafið regluleg gjaldeyriskaup á markaði.

„Eftir því sem efnahagsbati glæðist batna skilyrðin til þess að losa um höftin,“ sagði Arnór.

„Efnahagsbata fylgir aukið innstreymi erlends fjármagns í formi lána eða beinnar fjárfestingar. Umtalsverð bein erlend fjárfesting gæti skapað hagstæð skilyrði til þess að losa um höftin. Þótt vísbendingar um að bati hafi hafist þegar á fyrri árshelmingi þessa árs eða undir lok hins síðasta hafi reynst villuljós þá bendir margt til þess að botni samdráttarins sé u.þ.b. náð og að vöxtur hefjist á síðari helmingi þessa árs. Hversu hraður efnahagsbatinn verður veltur þó mjög á því í hve ríkum mæli tekst að laða erlent fjármagn til landsins í útflutningsskapandi fjárfestingu.“

Í niðurlagi erindis síns spurði Arnór þeirrar spurningar hvort hægt væri að losa um gjaldeyrishöftin án þess að því fylgi umtalsverður óstöðugleiki á gjaldeyrismarkaði. Hann svaraði því sjálfur þannig að ef traust sé fyrir hendi þá er það hægt.

„Enn er það ekki til staðar í nægilega ríkum mæli til þess að hægt sé að taka stór skref,“ bætti Arnór við.

„Hins vegar eru nú forsendur til þess að hefja undirbúninginn. Íslenskum stjórnvöldum hefur miðað töluvert áleiðis við að byggja upp traust, þótt enn sé nokkuð langt í land. Ótti fjárfesta við að ríkissjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar ætti að fjara út verði staðið við þau áform um aðhald í rekstri sem eru í fjárlögum ársins 2011 og áætlunum til næstu ára. Fljótlega ætti að koma í ljós að staða ríkissjóðs Íslands er að mörgu leyti betri en margra þróaðra landa, sem auk rekstrarhalla og erfiðrar skuldastöðu glíma við erfiðar lífeyrisábyrgðir. Aðgangur að nægum gjaldeyri er nú fyrir hendi til þess að greiða upp allar skuldir ríkissjóðs sem falla á gjalddaga til ársins 2013 og 2015 ef dregið verður á lán sem tengjast efnahagsáætluninni að fullu.“

Sjá erindi Arnórs í heild sinni.