Seðlabankanum þótti ekki réttlætanlegt að halda áfram fyrirgreiðslu til Straums „einfaldlega vegna þess að bankinn hafði ekki fullnægjandi veð fyrir slíkri fyrirgreiðslu," sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, á opnum fundi með viðskiptanefnd Alþingis í morgun.

„Það hefði með öðrum orðum verið tekin veruleg áhætta um að sú fyrirgreiðsla [...] myndi á endanum falla á skattgreiðendur," sagði hann.

Þingmenn viðskiptanefndar spurðu mikið út í þá ákvörðun að taka yfir Straum og hvers vegna Seðlabankinn hefði ekki veitt Straumi fyrirgreiðslu í ljósi þess að SÍ hefði veitt bankanum fyrirgreiðslu fyrr í vetur.

Arnór sagði að Straumur hefði verið með jákvætt eigið fé en verulegan lausafjárvanda. Sá lausafjárvandi hefði verið í erlendum gjaldmiðlum en ekki krónum. Seðlabankinn hefði áður veitt Straumi óhefðbundna fyrirgreiðslu með veðum í óhefðbundnum eignum. Það hefði þó ekki verið í samræmi við þá efnahagsstefnu sem mótuð hefði verið í samvinnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda.

„Verulegur hluti þessara veða sem Seðlabankinn tók áður hefur reynst vera ótraustur," sagði Arnór. „Þegar farið var yfir stöðu Straums og þann mikla vanda sem bankinn stóð frammi fyrir gagnvart erlendum lánardrottnum bankans var ekki réttlætanlegt að halda þeirri fyrirgreiðslu áfram, einfaldlega vegna þess að bankinn hafði ekki fullnægjandi veð fyrir slíkri fyrirgreiðslu. Það hefði með öðrum orðum verið tekin veruleg áhætta um að sú fyrirgreiðsla sem Seðlabankinn beitt myndi á endanum falla á skattgreiðendur."

Hann bætti því við að lykilatriði efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda væri að skuldir einkageirans féllu ekki á skattgreiðendur í ríkari mæli en verið hefði. „Þetta er engin stefnubreyting. Þetta er stefna sem var  mótuð í kjölfar hrunsins og er framfylgt."