Ungverska þingið samþykkti með miklum meirihluta á föstudag frumvarp til laga um að leggja 25% skatt á sjálfseignarstofnanir sem stunda „áróður sem sýnir innflytjendur í jákvæðu ljósi“. Financial Times segir frá .

Lögin eru liður í andstöðu stjórnvalda þar í landi við innflytjendur. Viktor Orban, forsætisráðherra, lofaði fyrir kosningar í apríl að beita hörku til að halda aftur af straumi innflytjenda inn í landið. Ef Janos Ader, forseti Ungverjalands, skrifar undir lögin, gætu þau tekið gildi strax í haust.

Í síðasta mánuði voru samþykkt svokölluð „stöðvum Soros“ lög, sem gera það meðal annars ólöglegt að hjálpa innflytjendum, að viðlagðri fangelsisvist. Til stóð að ákvæðið sem samþykkt var nú á föstudag yrði hluti af þeim lögum, en það var fjarlægt fyrir samþykkt laganna.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sagt lögin brjóta í bága við gildi og lagaleg viðmið sambandsins, og hyggst stefna Ungverjalandi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Gagnrýnendur nýju laganna, segja þau óskýr, og veita alltof víðtækar refsiheimildir. Meðal þess sem fellur undir skilgreiningu laganna á áróðri er að „taka þátt í fjölmiðlaátaki“, „koma sér upp og starfrækja tengslanet“, „jákvæður áróður“, og fræðsla. Þess fyrir utan komi ekki einu sinni fram hver stofn skattsins sé: launakostnaður, rekstrarkostnaður, eða önnur útgjöld.

Aron Demeter, talsmaður Mannréttindasamtakanna Amnesty International, segir lögin „árás á tjáningafrelsið“ og veltir fyrir sér hvað geti talist brot á þeim: „Er það að deila grein? Að deila þremur greinum?“

Talsmenn frumvarpsins segja það nauðsynlegt vegna þess að Ungverjar vilji ekki lifa í „innflytjendalandi“.