„Dómurinn er mér mikil vonbrigði og satt best að segja átti ég ekki von á að sannleikanum yrði snúið á hvolf jafn rækilega og raun ber vitni,“ segir Aron P. Karlsson sem í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag var dæmdur í tveggja ára fangelsi og til að sæta upptöku á tæpum 100 milljónum króna vegna sölu á húsi til kínverska sendiráðsins. Bankar sem veð áttu í húsinu sögðu Aron hafa beitt blekkingum við söluna og snuprað sig um 300 milljónir króna.

Aron segir í yfirlýsingu sem hann hefur sent fjölmiðlum niðurstöðuna byggða á röngum forsendum. Hann telur bankakerfið hafa fengið að njóta vafans í málinu en ekki hann sjálfur. Hann segist ekkert rangt hafa gert og ætlar að áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Aron segir eftirfarandi í yfirlýsingunni:

„Það var í gangi skuldauppgjör við bankana og þeir fengu í sinn hlut ríflega tvöfalt meira en þeir hefðu fengið með nauðungarsölu. Ég bauðst til að afsala eigninni til bankanna meðan á uppgjörsferlinu stóð en því var hafnað. Ferlinu var öllu stjórnað af sérfræðingum bankanna og það er mér hulin ráðgáta hvernig þeir geta fyrst lagt til verðmat en síðan verið ósáttir við það.  Ég vil ítreka að það voru engir baksamningar í gangi við einn né neinn og það er því rangt sem fram kemur í dómi héraðsdóms að búið hafi verið að semja við kínverska sendiráðið þegar uppgjör átti sér stað við bankana.“