Ársæll Valfells, lektor við Háskóla Íslands, var sá sem kom gögnum um viðskipti þingmannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við Landsbankann árið 2003 frá Fjármálaeftirlitinu til DV. Gögnin komu úr Landsbankanum og urðu til þess að Gunnari Andersen var sagt upp sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Ársæll segir í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í dag að hann hafi óafvitandi dregist inn í málið. Forsaga málsins sé sú að maður hafi bankað á dyrnar heima hjá honum og beðið sig um að skila sendingu til Gunnars. Ársll hafi strax haft samband við Gunnar og sagt honum frá sendingunni. Gunnar hafi svo beðið hann um að koma henni til fréttastofu DV.

Í yfirlýsingu Ársæls segir: „Ég treyst dómgreind þáverandi forstjóra FME og fór eftir beiðni hans í þessu einstaka tilviki. Ég hafði enga vitneskju um innihald sendingarinnar og hef þegar skýrt yfirvöldum frá aðkomu minni að þessu máli, sem og öðrum hlutaðeigandi.“