Hagnaður Eyris Invest á árinu 2007 nam 797 milljónum króna eftir skatt, en það jafngildir 5,7% ávöxtun eigin fjár.   Frá stofnun Eyris Invest á miðju ári 2000 hefur árleg hækkun á innra virði hlutafjár numið 49,9% að meðaltali til samanburðar við 3,8% neikvæða árlega meðalávöxtun heimsvísitölu MSCI fyrir sama tímabil, í báðum tilvikum mælt í evrum, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Eigið fé í árslok nemur um 18.133 millj. króna en var 11.995 millj. króna í upphafi árs.  Á árinu genginu fjárhagslega sterkir hluthafar til liðs við félagið og var gefið út nýtt hlutafé fyrir 5.382 millj. króna.  Stærstu hluthafar félagsins eru Þórður Magnússon (stjórnarformaður) og Árni Oddur Þórðarson (forstjóri) sem eiga samtals ríflega 51% hlut.

• Eiginfjárhlutfall í árslok er 39%, skattskuldbinding 4% af heildareignum og sjóðsstaða er sterk • Allar eignir eru bókaðar á markaðsvirði og engir framvirkir samningar um hlutabréf eru opnir í lok uppgjörstímabilsins • Meðalendurgreiðslutími lántöku er nærri fjórum árum í árslok og í janúar 2008 hefur félagið tryggt sér nýtt fjármagn í gegnum alþjóðlega banka og lengt meðalendurgreiðslutíma í yfir 4 ár

Eyrir Invest, í samstarfi við Landsbanka Íslands og Candover, gerði vinveitt yfirtökutilboð í allt hlutafé hollensku iðnaðarsamsteypunnar Stork N.V. Skilyrðum tilboðsins var fullnægt 17. janúar 2008 en heildarverðmæti tilboðsins nemur 1,7 milljörðum evra.  Samhliða seldu Eyrir Invest, Landsbanki Íslands og Marel sameiginlegan eignarhluta sinn í Stork N.V.  Félögin byggðu upp á tveimur árum 43% eignarhlut í gegnum LME, sameiginlegt eignarhaldsfélag.

Óaðskiljanlegur hluti yfirtökunnar á Stork N.V. er kaup Marels á Stork Food Systems fyrir 415 milljónir evra heildarkaupverðs.  Sameining félaganna er með fyrirvara samkeppnisyfirvalda sem vænst er að liggi fyrir á fyrri árshelmingi 2008.  Fjármögnun er að fullu tryggð, að jöfnu með nýju hlutafé og langtímalánum.  Eyrir Invest hefur skuldbundið sig til fullrar þátttöku í fyrirhuguðu hlutafjárútboði Marel Food Systems.

Eyris Invest losaði um verulega fjármuni þann 17. janúar 2008, þegar LME seldi öll hlutabréf sín í Stork . Hluti söluandvirðis er notað til að endurfjárfesta í Stork í gegnum yfirtökufélagið London Acquisiton B.V.  Jafnframt hefur Eyrir Invest skuldbundið sig til fullrar þátttöku í fyrirhuguðu forgangsréttarútboði Marels Food Systems.

„Árið 2007 var viðburðaríkt hjá Eyri Invest," segir Árni Oddur Þórðarson, forstjór félagsins, í tilkynningunni. "Við vorum varkár í veltubókarfjárfestingum á sama tíma og við studdum dyggilega við vaxtarmarkmið Össurar og Marels. Afkoma ársins er ásættanleg í ljósi markaðsaðstæðna.

Á árinu ber hæst vel heppnað yfirtökutilboð okkar í hollensku iðnaðarsamstæðuna Stork sem gert var í samvinnu við Landsbankann og Candover.  Samhliða þeirri yfirtöku mun Marel kaupa áralangan samtarfsaðila sinn Stork Food Systems.  Marel Food Systems mun nú, eftir tímabil öflugs ytri vaxtar, leggja ríka áherslu á innri vöxt og aukin hagnað.

Við erum þakklát fyrir þann góða stuðning sem við höfum fengið frá nýjum og eldri hluthöfum ásamt því trausti sem við njótum frá fjármálafyrirtækjum. Óróleiki á fjármálamörkuðum og lækkun hlutabréfaverðs getur skapað tækifæri fyrir fjárhagslega sterka fjárfesta með langtíma fjárfestingar í huga. Arðsemismarkmið okkar fyrir árin 2008-2010 er 16% mælt í evrum.”