Í dag tilkynnir FL Group um sölu á 16,9% hlut sínum í easyJet til London Stock Exchange. Bréfin voru seld fagfjárfestum víða um heim en alþjóðlegi fjárfestingarbankinn JP Morgan og JPMorganCazenove voru umsjónaraðilar sölunnar. Áætlað andvirði sölunnar er um 29 milljarðar króna segir í tilkynningu félagsins.

Með sölunni er FL Group að innleysa um 13 milljarða í hagnað og er arðsemi fjárfestingarinnar á ársgrundvelli um 70%, langt umfram markmið félagsins um 20% arðsemi. Andvirði sölunnar verður varið til nýrra fjárfestinga á árinu 2006.

Eftir söluna á eignarhlutnum í easyJet og skuldabréfaútgáfu félagsins sem nýverið var tilkynnt um er handbært fé félagsins um 50 milljarðar króna og fjárfestingargetan því umtalsverð.

Frá því FL Group fjárfesti fyrst í easyJet hefur félagið átt ánægjuleg samskipti við aðra eigendur sem og stjórnendur félagsins. FL Group telur að framtíð easyJet sé björt en tímasetning sölunnar nú er einkum vegna annarra fjárfestingatækifæra sem félagið sér segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að í kjölfar 44 milljarða króna hlutafjárútboðs FL Group haustið 2005 var félagið endurskilgreint sem fjárfestingarfélag með breiða sýn. Á þessu ári hefur félagið verið virkt í fjárfestingum sínum og eru Bang & Olufsen, Royal Unibrew, Aktiv Kapital, Finnair og Glitnir meðal þeirra félaga sem fjárfest hefur verið í. Frekari fjárfestinga er að vænta á árinu 2006 og er salan á eignarhlutnum í easyJet hluti af fjármögnun þeirra fjárfestinga.

FL Group er stór fjárfestir á innlendum og erlendum vettvangi og hefur gagnrýni erlendra greiningaraðila og fjölmiðla á íslenskt efnahagslíf ekki farið fram hjá félaginu. Það er mat félagsins að margt í þessari gagnrýni sé rangt því ekki sé tekið mið af þeim sterku eignum sem íslenskir fjárfestar hafa fjárfest í á erlendum vettvangi. Fjárhagsstaða FL Group er mjög sterk og handbært fé félagsins mikið.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group:

?FL Group fjárfesti fyrst í easyJet fyrir einu og hálfu ári og hefur fjárfestingin reynst félaginu einstaklega vel. Í raun má segja að fjárfestingin hafi lagt grunn að þeirri starfsemi sem er í FL Group í dag. Við höfum notið þess að vera fjárfestar í easyJet og trúum því að félagið sé vel statt innan sinnar atvinnugreinar og eigi bjarta framtíð.

Þrátt fyrir það þá var það hagur FL Group að innleysa hagnað af fjárfestingunni á þessum tíma. Verið er að vinna í nokkrum áhugaverðum fjárfestingarverkefnum og salan gerir okkur kleift að líta á fleiri og stærri verkefni.

Salan á eignarhlut okkar í easyJet hefur ekki áhrif á aðrar fjárfestingar okkar í þessum geira og við höldum áfram að vera fjárfestar í Icelandair, Sterling og Finnair."