Bakkavör Group skilaði 3 milljarða króna hagnaði fyrir skatta fyrstu níu mánuði ársins. Hagnaður eftir skatta nam 2,3 milljörðum króna. Heildartekjur námu 51,2 milljörðum króna. Hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) jókst um 202% og nam 6,3 milljörðum
króna. Handbært fé frá rekstri nam 4,7 milljörðum króna og frjálst fjárflæði frá rekstri var 1,9 milljarðar króna. Hagnaður á hlut jókst úr 0,5 pensum í 1,3 pens. Arðsemi eigin fjár var 28,3% samanborið við 14,9% á sama tímabili í fyrra.

Helstu rekstrarniðurstöður fyrstu níu mánuði ársins eru þær að hagnaður eykst um 137%. Heildartekjur aukast um 341%. Rekstrarhagnaður (EBIT) eykst um 181%. Vöxtur í undirliggjandi rekstri er 7,5%.

202% aukning er á hagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA). EBITDA hlutfall 12,3%.

"Afkoman fyrstu níu mánuði ársins sýnir áframhaldandi velgengni Bakkavör Group eftir yfirtöku félagsins á Geest í maí síðastliðnum. Samþættingarferlið gengur samkvæmt áætlun. Kaupin á Hitchen Foods í október samræmast stefnu félagsins og styrkja stöðu okkar á sviði fersks niðurskorins grænmetis. Frekari samþjöppunar má vænta á breska markaðnum en við stefnum að því að leiða þá þróun og halda áfram að leggja áherslu á þann hluta markaðarins sem vex hraðast. Með því munum við styrkja stöðu okkar enn frekar sem leiðandi afl á sviði ferskra tilbúinna matvæla," segir Lýður Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar í tilkynningu sem félagið sendi til Kauphallarinnar.