Hagnaður Landsbanka Íslands á tímabilinu var 13,8 milljarðar króna eftir skatta samanborið við 14,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2006. Hagnaður fjórða ársfjórðungs 2006 nam 14,1 milljarði króna. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 45,2% samanborið við 36,3% á öllu árinu 2006 að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Grunntekjur samstæðunnar (vaxtamunur og þjónustutekjur) námu 20,6 milljörðum króna og jukust þær um 4,8 milljarða króna eða 31% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2006 og 3,1 milljarð króna eða 17% samanborið við fjórða ársfjórðung 2006.

Tekjur af erlendri starfsemi námu 12,3 milljörðum króna eða 42% af heildartekjum. Grunntekjur erlendrar starfsemi námu 10,7 milljörðum króna eða 52% af grunntekjum samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi 2007.

Kostnaðarhlutfall tímabilsins reiknast 42,2%.  Gengismunur og fjárfestingatekjur námu 8,8 milljörðum króna samanborið við 1,2 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2006.

Heildareignir bankans námu 2.317 milljörðum króna í lok mars 2007. Heildareignir bankans í evrum námu 26,3 milljörðum í lok mars 2007 samanborið við 23,2 milljarða evra í byrjun ársins.

Innlán viðskiptavina jukust um 34% á fyrsta ársfjórðungi 2007 og námu 913 milljörðum króna í lok mars. Nema innlánin 62% af heildarútlánum til viðskiptavina samanborið við 48% í byrjun ársins.

Eiginfjárhlutfall (CAD) var 13,4% í lok mars 2007. Eiginfjárþáttur A var 11,7%.

?Ég er mjög ánægður með afkomu Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi 2007. Hagnaður eftir skatta nam tæpum 14 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 45%. Tekjumyndun bankans er byggð á traustum og breiðum grunni, sem endurspeglast í góðum vexti grunntekna samstæðunnar, en þær jukust um 17% frá síðasta ársfjórðungi og 31% miðað við sama tímabil á fyrra ári. Samþætting erlendra dótturfélaga og starfsstöðva hefur gengið mjög vel og stefna bankans um sókn inn á alþjóðlegan markað meðalstórra fyrirtækja miðar vel. Velgengni bankans á innlánahlið hélt áfram á ársfjórðungnum, einkum í gegnum Icesave, og er 62% af heildarútlánum samstæðunnar nú fjármagnað með innlánum. Þessi þróun treystir efnahagsreikning bankans umtalsvert. Það er óhætt að segja að árið 2007 hafi farið vel af stað hjá Landsbankanum," segir Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri í tilkynningu félagsins.


?Niðurstaða fyrsta ársfjórðungs 2007 endurspeglar sterka stöðu Landsbankans, þar sem afkoma og arðsemi er með besta móti. Það má segja að ákveðin ró sé komin á umræðuna um íslensk fjármálafyrirtæki, eftir umrótasöm misseri. Moody´s gaf út nýtt lánshæfismat fyrir Landsbankann samkvæmt nýrri aðferðafræði, JDA. Samkvæmt henni hækkaði bankinn um 2 þrep, úr A2 í Aa3 og horfur um fjárhagslegan styrk fóru úr ?neikvæðum? í ?stöðugar?. Álag á skuldabréf bankans á eftirmarkaði hefur farið lækkandi og undanfarið hefur það verið um 20-22 punktar á bréf með 5 ára líftíma. Hækkað lánshæfismat, mikill vöxtur erlendra innlána og sterk lausafjárstaða samhliða áframhaldandi vexti hreinna vaxtatekna og þóknunartekna er það sem stendur upp úr á fyrsta
ársfjórðungi 2007," segir Halldór J. Kristjánsson bankastjóri í fréttinni.