Hagnaður Landsbanka Íslands á fyrri árshelmingi 2007 nam 26,3 milljörðum króna (EUR 300m) eftir skatta í samanburði við 20,4 milljarða króna á sama tímabili 2006. Hagnaður fyrir skatta var 29,5 milljarðar króna (EUR 337m).  Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 39%.

Í frétt bankans kemur fram að grunntekjur samstæðunnar (vaxtamunur og þjónustutekjur) námu 43,9 milljörðum króna (EUR 502m) á fyrri árshelmingi 2007 og jukust um 21% miðað við fyrri árshelming 2006.

Þóknunartekjur námu 19,5 milljörðum króna (EUR 223m), þar af koma 12,8 milljarðar króna (EUR 146m) frá erlendri starfsemi eða 65% í samanburði við 7,6 milljarða króna eða 55% fyrir sama tímabil á fyrra ári.

Gengismunur og fjárfestingatekjur námu 14,8 milljörðum króna (EUR 169m) í samanburði við 9,7 milljarða króna á fyrri árshelmingi 2006. Kostnaðarhlutfall tímabilsins var 44%.

Heildareignir bankans námu 2.597 milljörðum króna (EUR 30,8bn) króna í lok júní 2007 í samanburði við 2.173 milljarða króna í upphafi ársins.

Innlán viðskiptavina jukust um 74% og námu 1.187 milljörðum króna (EUR 14,1bn) í lok júní. Innlánin nema 76% af heildarútlánum til viðskiptavina í samanburði við 47% í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 12,5% í lok júní 2007. Eiginfjárþáttur A var 11,1%



Helstu niðurstöður annars ársfjórðungs 2007:


Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 12,5 milljörðum króna (EUR 146m) eftir skatta í samanburði við 13,8 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi.

Hreinar rekstrartekjur annars ársfjórðungs námu 29,1 milljörðum króna (EUR 340m).

Hreinar vaxtatekjur námu 13,5 milljörðum króna (EUR 158m) í samanburði við 10,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi.

Þóknunartekjur annars ársfjórðungs námu 9,7 milljörðum króna (EUR 113m).

Innlán frá viðskiptavinum jukust um 274 milljarða króna (EUR 3,3bn) á meðan útlán til viðskiptavina jukust um 84 milljarða króna (EUR 997m) á öðrum ársfjórðungi.



Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri segir í tilkynningu: ?Rekstrarniðurstaða annars ársfjórðungs 2007 er mjög góð. Hagnaður eftir skatta nam 12,5 milljörðum króna og nemur hagnaður á fyrri árshelmingi því 26,3 milljörðum króna og er arðsemi eigin fjár 39%. Á fyrri árshelming 2007 námu þóknunartekjur 19,5 milljörðum króna og eru fyrstu tveir ársfjórðungar þess árs þeir bestu í sögu bankans. Þá eru 65% af þóknunartekjum af erlendri starfsemi samanborið við 55% á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Það sem af er ári höfum við fjárfest umtalsvert til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu alþjóðlegrar starfsemi samstæðunnar, m.a. í Noregi, Finnlandi og Bandaríkjunum. Þá höfum við útvíkkað starfsemi útibús bankans í London, jafnframt því sem kaupin á Bridgewell munu styrkja stöðu bankans enn frekar á breska markaðnum. Afkoma og arðsemi allra starfsþátta er góð og endurspeglar stöðugleika og breidd í rekstri Landsbankans?.



Halldór J. Kristjánsson bankastjóri segir í tilkynningu: ?Það er ánægjulegt að sjá styrk Landsbankans endurspeglast í gegnum rekstrarniðurstöðu fyrstu 6 mánuði ársins 2007. Fjármögnunarhlið bankans hefur haldið áfram að styrkjast og hafa innlán aukist um 74% eða rúma 500 milljarða króna það sem af er ári. Munar þar mestu um góðan árangur í Bretlandi með Icesave innlánsformið, sem hefur nú um 100.000 viðskiptavini og 4 milljarða breskra punda í innstæðum. Hlutfall innlána af útlánum til viðskiptavina nemur nú 76% samanborið við 47% í byrjun ársins og 34% í upphafi síðasta árs. Þessi þróun er mjög mikilvæg fyrir Landsbankann, einkum og sér í lagi þar sem ákveðins óróa er farið að gæta á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Góður fyrri árshelmingur er að baki og með undirliggjandi góðri grunnafkomu, eru rekstrarhorfur fyrir árið 2007 í heild sinni góðar.?