Hagnaður Atorku eftir skatt á fyrstu sex mánuðum ársins var rúmlega 6 milljarðar króna þegar félagið er gert upp á móðurfélagsgrunni. Hagnaður eftir skatt á öðrum ársfjórðungi var rúmlega 3 milljarðar króna.  Heildareignir í lok júní voru 54,8 milljarðar króna og eigið fé var 21,5 milljarðar króna í lok júní. Arðsemi eigin fjár nam 70% á ársgrundvelli.

Eiginfjárhlutfall er 39%.Hagnaður á hlut á fyrstu 6 mánuðum ársins nam 1,91.

Magnús Jónsson forstjóri Atorku segir um afkomuna í tilkynningu; ?Afkoman á fyrstu 6 mánuðum ársins er mjög góð. Vel heppnuð sala á Jarðborunum er til vitnis um árangursríka framkvæmd á fjárfestingarstefnu félagsins. Með sölunni innleysti Atorka verulegan hagnað og fjárhagsstaða félagsins er sterk. Við erum orðin kjölfestufjárfestir í Geysir Green Energy og teljum það vera mjög spennandi fjárfestingarkost. Í Geysi Green Energy sjáum við mikil tækifæri til að skapa veruleg verðmæti með þátttöku í uppbyggingu á því félagi. Önnur fjárfestingarverkefni Atorku ganga vel, uppbyggingin á Promens gengur vel og unnið er að undirbúningi fyrir skráningu félagsins. Fjárfestingargeta okkar er mikil og félagið er í góðri stöðu til að nýta sér markaðsaðstæður sem nú eru fyrir hendi.?