Samanburður á arðsemi orkufyrirtækja og arðsemi í annarri atvinnustarfsemi hérlendis gefur til kynna að arðsemi af fjármagni sem bundið var í orkuvinnslu og dreifingu 1988- 2006 hafi að jafnaði verið um 1,7%, samanborið við 3,8% í annarri atvinnustarfsemi að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskilinni.

Þetta kemur fram í áfangaskýrslu Sjónarrandar sem unnin er fyrir fjármálaráðuneytið um mat á arðsemi orkusölu til stóriðju en fjármálaráðherra kynnti skýrsluna í ríkisstjórn í morgun.

Í helstu niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að samanburður á arðsemi íslenskra orkufyrirtækja og orkufyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum bendir til að hún sé talsvert lakari hér á landi. Á því tímabili sem skoðað var (2000-2006/8) var arðsemi af fjármagni sem bundið er í orkuvinnslu og dreifingu eftir skatta í námunda við 10,8% í Bandaríkjunum og um 7% í Evrópu en einungis um 2,4% á Íslandi.

Fram kemur í skýrslunni að í Evrópu og Bandaríkjunum standast orkufyrirtæki arðsemiskröfu betur en aðrar atvinnugreinar. Íslensk orkufyrirtæki standast hana þriðjungi verr en aðrar íslenskar atvinnugreinar. Þá getur kostnaður vegna kaupa á kolefniskvótum haft umtalsverð áhrif á arðsemi orkufrekra fyrirtækja sem losa gróðurhúsalofttegundir.

Þá komast höfundar skýrslunnar einnig að þeirri niðurstöðu að miðað við líklegan náttúrukostnað af dæmigerðum virkjanaframkvæmdum er þjóðhagsleg arðsemi þeirra sennilega umtalsvert minni en hefðbundnir arðsemisreikningar (sem ekki taka tillit til umhverfisspjalla) gefa til kynna.

Forsaga skýrslunnar er sú að í apríl 2009 samdi Fjármálaráðuneytið við Sjónarrönd ehf. um að framkvæma mat á afrakstri orkusölu til erlendrar stóriðju fyrir íslenska þjóðarbúið. Verkefnið greinist í tvo meginverkþætti: Annars vegar skal leggja mat á arðsemi orkusölu til stóriðju; hins vegar skal meta þjóðhagsleg áhrif af erlendum fjárfestingum í stóriðju.

Fyrir hönd Sjónarrandar hafa eftirtaldir unnið að gerð skýrslunnar: Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur, Dr. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur, Dr. Ásgeir Jónsson lektor við Háskóla Íslands og Dr. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.