Arnfinnur Sævar Jónsson, fyrrum eigandi Leonard skartgripaverslunar, var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í Héraðsdómi Rekjaness í dag. Fullnustu níu mánaða fangelsisvistar er frestað, haldi hann almennt skilorð í tvö ár.

Sævar var fundinn sekur um að hafa skotið undan eignum í aðdraganda þess að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta og þannig rýrt rétt lánardrottna sinna. Málavextir voru þeir að Sævar seldi svissneska félaginu iiLuxury International AG fasteign að 8700 Sandy Crest Lane, Boynton Beach í Flórída á tíu bandaríkjadali til að forða henni frá fjárnámi, þann 1. febrúar 2010. Sævar var þá stjórnarformaður í félaginu.

Verðmæti hússins verulega vanáætlað

Sævar átti helming hússins á móti eiginkonu sinni, en hjónin greiddu fyrir það tæpa 658.000 dali árið 2007. Þegar bú hans var tekið til skipta í upphafi árs 2010 var verðmæti eignarhlutar hans að minnsta kosti 136.000 dalir, svo ljóst að kröfuhafar báru skarðan hlut frá borði vegna málamyndagjörningsins.

Mun félagið iiLuxury International AG hafa gert tilraun til að selja húsið, síðar sama ár á tæpa 450.000 dali og taldi dómurinn einsýnt að greiðsla tíu dala fyrir húsið hafi verið til að koma eignum frá því að verða fullnustaðar í þágu skulda Sævars.