Eitt af þeim verkefnum sem Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, hefur lagt áherslu á undanfarin ár snúa að samfélagslegri ábyrgð.

„Ég held að það sé að verða breyting í fyrirtækjarekstri og viðmiðum til fyrirtækja hvað varðar samfélagslega ábyrgð. Ég hef verið að kynna mér þetta síðustu tvö ár en Landsbankinn hefur lengi verið mjög framarlega á þessu sviði. Öll viðmið í okkar rekstri eru löngu komin á þann stað að taka tillit til umhverfissjónarmiða, samfélagssjónarmiða og góðra stjórnarhátta.

Næsta skref er að þetta sé hluti af reglulegri starfsemi og ákvarðanatöku. Ég var svo heppin að fá nýlega boð á fund hjá Sameinuðu þjóðunum um ábyrga bankastarfsemi. Þar fannst mér mjög ánægjulegt hversu mörg fjármálafyrirtæki ræddu um að það væri rangt viðmið að horfa eingöngu til árangurs í hverjum ársfjórðungi. Þú átt að skila ávinningi til miklu lengri tíma fyrir fyrirtækið, eigendur, viðskiptavini, starfsfólk og samfélagið.

Þú átt að horfa á markmið sem eru miklu sterkar ofin samfélaginu í heild. Það er mjög náttúrulegt fyrir Landsbankann að vera á þessum stað. Við erum ábyrg, traust og samfélagslega þenkjandi og viljum veita viðskiptavinum okkar góða þjónustu á ábyrgan hátt þannig að bankinn sé arðsamur og verði vel rekinn til langrar framtíðar.“

Lilja segir samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og krafa um arðsemi ekki vera andstæður eins og stundum er af látið heldur fari þetta vel saman. „Kjarninn í þessu er að þú verður að taka ákvarðanir sem eru arðsamar til langs tíma. Þú átt að taka ákvarðanir sem skila sér í lífvænlegu fyrirtæki og ábata fyrir viðskiptavininn til lengri tíma. Þetta snýst ekki um nein huglæg, mjúk markmið heldur góðan árangur til framtíðar.“

Nánar er rætt við Lilju í bókinni 300 stærstu . Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .