Leynifélagið Kappa Beta Phi hélt árlegan fund sinn síðastliðinn fimmtudag, samkvæmt því sem fram kemur á vefsíðu Bloomberg. Einungis stjórnendur stærstu og voldugustu fjármálafyrirtækjanna fá inngöngu í klúbbinn en hann var stofnaður fyrir fjármálakreppuna 1929.

Að þessu sinni var meðal annars 655. ríkasta manni heims samkvæmt Forbes veitt innganga. Sá heitir Josh Harris og er sjóðstjóri Apollo Global Management LLC.

Þá gerðist Paul Parker, forstöðumaður samruna og yfirtaka hjá Barclays, einnig meðlimur. Hann starfaði áður sem yfirmaður hjá Lehman Brothers.

Tekið er fram í fréttinni að heimildarmenn eru tveir einstaklingar sem mættu á samkomuna. Þar sem starfsemi félagsins er leynd öðrum en meðlimum vildu þeir ekki tjá sig undir nafni.

Á margrétta matseðlinum síðastliðið fimmtudagskvöld var boðið upp á humarsalat, rækjur, grísakjöt, lambasteik og pistasíu-ís.