Ársfundur Alþýðusambands Íslands samþykkti ályktun þar sem þess er krafist að lífeyrisréttindi alls vinnandi fólks á Íslandi verði samræmd og jöfnuð, án skerðingar fyrir almennt launafólk.

„Með því verði eytt þeirri mismunun sem viðgengist hefur þegar borin eru saman lífeyriskjör launafólks sem aðild á að lífeyrissjóðum á samningssviði ASÍ á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum, þar á meðal hvað varðar aukin og óskert lífeyrisréttindi sem ráðherrar og alþingismenn skömmtuðu sér í desember 2003,“ segir í ályktun ársfundarins.

Jafnframt er í ályktuninni vakin athygli á því að vegna falls bankanna, samdráttar og yfirvofandi gjaldþrota fyrirtækja hafa lífeyrissjóðir landsmanna tapað hluta eigna sinna. Lífeyrisréttindi almennu lífeyrissjóðanna muni í kjölfarið skerðast, en lífeyrisréttindi opinberra sjóða muni ekki verða skert og ríkis- og sveitarsjóðir muni samkvæmt gildandi lögum leggja þeim sjóðum til það fé sem þarf til að standa undir óskertum réttindum.

„Á þennan hátt er launafólki á almennum vinnumarkaði gert að taka á sig með tvöföldum þunga, það tap sem allir lífeyrissjóðir landsmanna verða nú fyrir,“ segir í ályktun ársfundar Alþýðusambandsins.