Verðhækkun íbúða á síðasta ári nam 7,7% á höfuðborgarsvæðinu, og hefur 12 mánaða hækkun þess ekki verið hærri síðan í febrúar 2018. Hækkunin var að meðaltali 0,6% í nóvember og desember að því er Hagsjá Landsbankans hefur tekið saman upp úr tölum Þjóðskrár. Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 0,4%, og verð á sérbýli um 1%.

Hagdeild bankans telur að enn sé innistæða fyrir hækkunum vegna fylgni verðþróunar og fjölda kaupsamninga, en viðskiptin jukust um 14% að jafnaði milli ára á síðasta ári en síðast þegar varð jafnmikil fjölgun, árið 2016, hækkaði fasteignaverið í kjölfarið.

Fjöldi kaupsamninga sem undirritaðir voru í september voru til að mynda hátt í þúsund, en leita þarf aftur til 2007 til að finna annan eins fjölda, en nú þegar eru skráðir 663 kaupsamningar í desember.

Önnur ástæða mögulega áframhaldandi hækkana sé að hlutfall íbúða sem seljist yfir ásettu verði hafi hækkað í 22% undir lok síðasta árs, en það var 8% árið áður, og hefur hlutfallið ekki verið hærra síðan 2017 þegar hækkun íbúðaverðs var yfir 20% á 12 mánaða tímabili.

Hagdeild bankans segir jafnframt að meðaltalshækkun vísitölu á íbúðaverði hafi verið 4,8% á árinu 2020 sem sé nokkuð nálægt þeirra eigin spá um 4,5% frá því í október, en talsvert ofar en sú 2% hækkun sem spáð hafi verið í vor. Samt sem áður bendir bankinn á að hækkunin nú sé ekki mikil í sögulegu samhengi því að frá aldamótum hafi íbúðaverð að jafnaði hækkað um 9% á ári.

Raunverð íbúða hafi hins vegar hækkað að jafnaði um 5% milli ára en horft yfir síðasta ári í heild og sé sú hækkun því nokkuð hófleg á þann mælikvarða.