Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli maí og júní samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans.

Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,7%, sem er ívið meiri ársbreyting en var í síðasta mánuði. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en tók stökk upp á við nú í apríl og maí og verið í kringum 6,5%.

Launabreytingar sem tengjast kjarasamningum opinberra starfsmanna eru nú væntanlega komnar að fullu inn í launavísitöluna í apríl og það sama má segja um áfangahækkanir á almenna markaðnum frá í vor.

Það sem af er árinu hefur launavísitalan hækkað að meðaltali um 0,8% á mánuði. Útlit er fyrir að hægja muni á hækkun vísitölunnar á seinni helmingi ársins þar sem næstu áfangahækkanir samkvæmt kjarasamningum verða ekki fyrr en 1. janúar á næsta ári, verði kjarasamningar enn í gildi þá, en samkvæmt ákvæðum samninga á að fara fram mat á forsendum þeirra í september.

Kaupmáttur launa hefur aldrei mælst hærri en var í apríl þegar hann tók stökk upp á við. Kaupmáttur hefur minnkað eilítið síðustu tvo mánuði, en engu að síður hærri á síðustu þremur mánuðum en nokkurn tíma áður, sem er reyndar athyglisvert í ljósi þess að hallað hefur verulega undan fæti í efnahagslífinu. Vísitala neysluverðs hækkaði einungis um 2,2% milli aprílmánaða 2019 og 2020. Launavísitalan hækkaði um 6,7% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á tímabilinu er nokkuð augljós.