Um 16% þjóðarinnar 18 ára og eldri er á leigumarkaði og er sú niðurstaða svipuð því sem mælst hefur síðustu mánuði þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá íbúðalánasjóði um húsnæðismarkaðinn. Einnig kemur fram að færri einstaklingar séu nú á hvert heimili á leigumarkaði heldur en í eigin íbúðarhúsnæði. Þá hyggjast 89% leigjenda sér að vera áfram á leigumarkaði eftir hálft ár.

Um 21% þeirra sem eru í foreldrahúsum telja líklegt að þau muni flytja sig yfir á leigumarkaðinn á næstu 6 mánuðum.

Leigendur eru ólíklegri en aðrir til að ráðast í fasteignakaup. Niðurstöður könnunarinnar sýna að um 6% þjóðarinnar telja líkur á að þau ráðist í fasteignakaup.

Verðvísitölur íbúðaverðs og leiguverðs eru að færast nær hvor annarri. Samkvæmt tölum frá þjóðskrá Íslands hækkaði vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,1%. Því mælist árshækkun leiguverðs samkvæmt þinglýstum leigusamningum 7,2% og er ofar bæði árshækkun íbúðaverðs og launa.  En árshækkun launa í maí var 6,3% og árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 4,6%.

Fyrir nákvæmlega einu ári síðan var staðan sú að íbúðaverð hafði hækkað um 23,5% á ársgrundvelli og var það mun meiri hækkun á einu ári en áður hafði sést. Leiguverð fylgdi að einhverju leyti í kjölfarið með 14% hækkun, sem er ekki jafn áberandi en þó yfir langtímameðaltali vísitölunnar á ársgrundvelli sem er um 8,6% frá upphafi mælinga.