Í góðæri undanfarinna ára hafa árshátíðarferðir íslenskra fyrirtækja til útlanda orðið sífellt vinsælli. Með auknu flugframboði, lækkandi flugfargjöldum og sögulega miklum kaupmætti hefur hver flugvélafarmurinn á fætur öðrum af Íslendingum með sparifötin í ferðatöskunni farið út til að brjóta upp hið daglega amstur og skapa stemningu á vinnustaðnum.

Suður- og Austur Evrópa vinsæl

Allur gangur er á því hvernig fyrirtæki halda upp á árshátíðir, hversu vel menn vilja gera við sig og hvaða ferðaskrifstofa heldur utan um starfshópinn. Viðskiptablaðið leitaði upplýsinga hjá Heimsferðum um hvað stæði slíkum hópum til boða.

Borgarferðir Heimsferða, sem farnar eru á vorin og haustin, eru sérstaklega vinsælar í árshá- tíðarferðum til útlanda, einkum til Suður- og Austur Evrópu.

„Eins og fyrri ár eru borgarferðir til Búdapest, Prag, Ljubljana, Rómar og Veróna afar vinsælar, ásamt Bratislava, Lissabon og Valencia,“ segir Anna María Árnadóttir, sölu- og markaðsstjóri Heimsferða. Einnig er flogið til Alicante og Vín. Heimsferðir hófu að bjóða hópferðir til Zagreb og Split í Króatíu í fyrsta skipti í ár og stefna að því að bjóða slíkar ferðir til Porto. Allar eru fyrrnefndu ferðirnar í beinu flugi frá Keflavík, en einnig er flug frá Sevilla frá Akureyri og Glasgow frá Egilsstöðum.

Íslenskir fararstjórar eru á öllum áfangastöðunum og er boðið upp á kynnisferðir í borgunum fyrir þá sem hafa áhuga. Starfsmannahópar geta einnig fengið aðstoð við að nýta sér aðra afþreyingu, svo sem að panta miða á íþróttaviðburði, leikhússýningar og tónleika.

Verð frá 80 þúsund á mann

Í þeim verðdæmum sem Viðskiptablaðið kannaði er gert ráð fyrir að gist sé í fjórar nætur með morgunverði í tveggja manna herbergi. Fluggjald er innifalið. Verð á fyrirtækjaferðum til útlanda getur verið allt frá rúmlega 80 þúsund krónur á mann upp í 130 þúsund.

Nánar er fjallað um málið í Fundir & ráðstefnur, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .