Árslækkun Úrvalsvísitölunnar er orðin meiri en allt árið 2000 sem fram að þessu hefur verið lakasta árið á innlendum hlutabréfamarkaði, að sögn greiningardeildar Kaupþings. Frá áramótum hefur vísitalan lækkað um 20,1%.

Í dag lækkaði vísitalan um 4,48%, sem er mesta lækkun á einum degi frá 4. apríl árið 2006 og sú þriðja mesta frá ársbyrjun 1998, að sögn greiningardeildarinnar.

Úrvalsvísitalan fór í dag undir 5.000 stiga múrinn í fyrsta skipti síðan 21. nóvember árið 2005.

Innlendur markaður náði hámarki þann 18. júlí í fyrra þegar vísitalan rétt rauf níu þúsund stiga múrinn. Tók hún þá að lækka þótt lækkunarþunginn hafi ekki færst í aukana fyrr en á síðustu vikum ársins, að sögn greinignardeildarinnar.