Ársæll Valfells, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins að ekki sé hægt að halda í krónuna sem sjálfstæðan gjaldmiðil á Íslandi. Krónan hafi aldrei uppfyllt þau skilyrði sem raunverulegur gjaldmiðill þurfi að uppfylla. Eina leiðin nú sé að skipta einhliða um gjaldmiðil. Þetta viðurkenni Seðlabanki Íslands í raun í áliti sínu til forsætisráðherra á mögulegri breyttir peningamálastefnu.

Engin fyrirstaða

„Það er engin fyrirstaða fyrir því að taka einhliða upp erlendan gjaldmiðil hér á landi. Það tekur tvær til fjórar vikur að undirbúa, skiptin sjálf jafnvel ekki nema eina helgi."

Aðgerðin felst að sögn Ársæls einfaldlega í að skipta út seðlum og mynt fyrir t.d. dollara eða evru á fyrirframákveðnu gengi og þar sé um að ræða um 20 milljarða króna. Til þess megi nota hluta af gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka sem sé nú um 350 milljarðar króna.

Seðlabanki Íslands segir í áliti sínu til forsætisráðherra að landið geti ekki talist hagkvæmt gjaldmiðilssvæði. Tíundar bankinn í áliti sínu sögu krónunnar þar sem allar tilraunir til að nota hana til að stýra hagkerfinu hafi í raun mistekist. Þá bendir bankinn á að hvort sem Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu eða ekki muni það ekki geta tekið upp evru í náinni framtíð.

Innlend pólitísk tregða

„Tregðan er pólitísk og innanlands,” segir Ársæll. „Með því að vera með eigin gjaldmiðil hafa stjórnmálamenn í gegnum söguna búið við vald sem þeir hafa nýtt til að láta almenning í landinu borga kostnaðinn af óábyrgri efnahagsstjórn. Slíkt gengur þó ekki að eilífu, slík misnotkun endar með skorti á trúverðugleika. Hrun fjármálakerfisins og gjaldeyrishöft eyddu síðustu leifum af trúverðugleika krónunnar. Kostnaðurinn við að endurreisa trúverðugleikann er einfaldlega munaður sem við höfum ekki efni á í augnablikinu

Öll bið á að taka upp annan gjaldmiðil kostar okkur hundruð milljarða á ári sem er tekið beint úr vasa heimila og fyrirtækja."

Heimilum og fyrirtækjum fórnað fyrir krónu

"Kjarni vandans er tvíþættur. Til að lánveitendur og fjárfestar treysti gjaldmiðlinum, þá þarf Seðlabankinn að halda uppi gífurlega háum vöxtum. Á sama tíma er heimilunum og fyrirtækjunum að blæða út. Ef menn ætla að bjarga krónunni þá fórna menn heimilunum og fyrirtækjunum. Ef það á hins vegar að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum, þá þarf að lækka vextina og viðhalda höftum og um leið fórna menn gjaldmiðlinum.

Enginn flytur verðmæti yfir í gjaldmiðil sem ekki er hægt að færa þau úr aftur til baka. Einhliða upptaka leysir bæði þessi vandamál í einu. Vextir verða fljótt þeir sömu og ríkja í nýja gjaldmiðlinum og fjármálakerfið fær trúverðugleika sinn á ný því gjaldeyrishöftin verða samstundis óþörf. ”

Ársæll varpaði fram hugmynd í nóvember 2008 ásamt Heiðari Már Guðjónssyni, hagfræðingi, um að Íslendingar tækju einhliða upp erlendan gjaldmiðil. Var sjónum þar einkum beint að evru, en einnig bent að dollar.

Ársæll segir að skoðun sín hafi ekkert breyst. Það sé enn ekkert því til fyrirstöðu að taka upp evru annað en ótti íslenskra Evrópusinna við að með einhliða upptöku hverfi hvatinn fyrir því að samþykkja endanlega inngöngu í ESB.

Enginn getur bannað okkur

„Sjálfur er ég hlynntur aðildarviðræðum en vandinn er sá að við fáum ekki gjaldmiðilinn með aðild fyrr en eftir 5-10 ár. Því er best að taka upp gjaldmiðilinn fyrst og sækja svo um! Ennfremur er vandi baltnesku ríkjanna innan ESB augljós, þau vantar gjaldmiðilinn en fá hann ekki vegna stífra og úreltra reglna ESB!"

Hann segir að það geti enginn bannað Íslendingum eða öðrum að nota evru í sínum viðskiptum.

Viðbrögð ESB eru þekkt

„Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka, var landstjóri í Kosovo 1999 til 2001 í umboði Sameinuðu þjóðanna. Hann ákvað árið 1999, að íbúar í Kosovo skyldu hætta að nota serbneska dinarinn sem lögeyri en í stað nota evru án þess að spyrja nokkurn að því. Og ég hef vissu fyrir því að háttsettir menn í ECB líta frekar á það sem vantraustsyfirlýsingu á evruna ef við tækjum upp dollar” Viðbrögð ESB eru fyrirfram þekkt; „þetta er á ykkar eigin ábyrgð” það er allt og sumt.

Ársæll segir að vissulega sé líka möguleiki á að taka upp dollar ef menn hafi ekki kjark til að taka upp evru. „Dollar eða evra skiptir ekki höfuð máli, landið þarf nothæfan gjaldmiðil”

Seðlabankinn viðurkennir

„Seðlabankinn viðurkennir sjálfur að það sé ekki hægt að halda úti eigin gjaldmiðli. Þá vantar gjaldmiðil. Þar eru tveir möguleikar í stöðunni.

Annarsvegar að taka einhliða upp gjaldmiðil eða hinsvegar taka gjaldmiðil í gegnum myntráð líkt og Hong Kong gerði með Bandaríkjadollar 1983. Myntráð krefst trúverðugs stjórnkerfis sem ekki er fyrir hendi hjá okkur. Hættan við myntráðsleiðina er það sem Argentína lenti í. Þeir tóku dollar upp í gengum myntráð, en höfðu svo ekki nægilega traust stjórnkerfi til að skapa trúverðugleika um myntráðið. Það hrundi með skelfilegum afleiðingum.

Einhliða upptaka er eini kosturinn

Ísland hefur ekki trúverðugleikann til að halda úti myntráði. Því er bara einn kostur eftir í stöðunni og það er að taka einhliða upp annan gjaldmiðil! Því lengur sem stjórnmálamenn bíða, því meir blæðir þjóðinni út.”