Ljóst er að þeir sem ekkert græddu á fjármálabólunni, sem búin var til af óábyrgum og gráðugum bankamönnum, munu sitja eftir með reikninginn.

Þetta kemur fram í grein Ársæls Valfells, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands á vef tímaritsins Forbes í dag.

Ársæll ritar grein sína undir fyrirsögninni, siðferðislega ógeðfellt og segir að bresk og hollensk stjórnvöld hafi kúgað íslensk stjórnvöld til að ábyrgjast skuldbindingar vegna Icesave reikninganna í ríkjunum tveimur. Í grein Ársæls kemur fram vegna skuldbindinganna þurfi að skera niður í íslensku velferðar, heilbrigðis- og menntakerfinu. Þannig lendi reikningurinn á íslenskum skattgreiðendum.

Ársæll segir að vegna reynsluleysis hafi núverandi fjármálaráðherra gefið eftir í samningaviðræðum um Icesave en embættismenn Breta og Hollendinga hafi beitt hótunum – á borð við þær að samstarf íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði rofið og EES samningurinn kæmist í uppnám – til að fá sínu fram.

Þá víkur Ársæll að mögulegri aðild Ísland að Evrópusambandinu og segir að gefið hafi verið í skyn að lausn Icesave málsins kunni að flýta fyrir aðild Íslands að sambandinu.

„Samningurinn felur í sér að ábyrgðin á bæði lagalegum og efnahagslegum afleiðingum fjármálastofnana í einkaeigu liggur nú hjá þeim sem komu ekki nálægt því að búa þær til,“ segir Ársæll (í lauslegri þýðingu blaðamanns).

„Það er vissulega rangt að þeir sem treystu á að lagaumhverfi ESB myndi vernda innlán sín, skuli nú hafa glatað sparifé sínu. Það er hins vegar jafn rangt að stjórnvöld, sem eru ábyrg fyrir því að búa til lagaumhverfið, skuli skýla sér á bakvið þá sem treysta á íslenska velferðarkerfið til að greiða fyrir mistök sín.“

Sjá grein Ársæls hér.