Breyting á lögum um ársreikninga tók gildi nú um áramót, hvað varðar gjaldtöku fyrir afhendingu gagna úr ársreikningaskrá.

Breytingin felur í sér að ársreikningaskrá skuli birta skilaskyld gögn á opinberu vefsvæði, en ráðherra er áfram heimilt að setja ákvæði í reglugerð um gjaldtöku vegna annars konar afhendingu gagna.

Fram til þessa hafði Skatturinn rukkað gjald fyrir hverja síðu ársreiknings, óháð því hvort gögnin voru afhent rafrænt eða útprentuð.

Samkvæmt gjaldskrá Skattsins, sem ekki hefur verið uppfærð á vefnum, kostaði rafrænt afrit af hverri blaðsíðu gagna 300 krónur, fyrstu tíu blaðsíðurnar, sama gjald og tekið er fyrir ljósritaðar síður, en 150 krónur fyrir hverja síðu eftir það.

Breytingin kemur sér vel fyrir áhugafólk um lestur ársreikninga og aðra þá er upplýsingarnar nýta, enda er nú mögulegt að glugga í gögn ársreikningaskrár að vild án þess að pyngjan líði fyrir.