Viðskiptablaðið óskaði eftir því að fá afrit af ársreikningum Reykjanesbæjar vegna áranna 1994 til og með 2001 vegna vinnslu á úttekt um skuldastöðu bæjarfélagsins fyrir tveimur vikum.

Bærinn gat ekki orðið við þeirri beiðni, en í svari frá fjármálasviði bæjarins segir: „Allir þeir sem unnu við bókhaldið á þessum árum eru hættir og við höfum því miður ekki þessa ársreikninga. Þeir eru sennilega til einhvers staðar en við fundum þá ekki við leit okkar fyrir nokkrum árum síðan.“

Af þessum sökum hefur birting úttektarinnar frestast, en reynt hefur verið að afla þessara fjárhagsupplýsinga með öðrum leiðum.

Á morgun mun birtast ítarleg úttekt á fjármálum Reykjanesbæjar. Þar er meðal annars fjallað þróun skulda sveitarfélagsins frá 2002, áhrif brotthvarfs Varnaliðsins á Keflavíkurflugvelli á rekstur bæjarins, sölu hlutabréfaeignar í HS orku og fleira.