Í dag verður þingfest stefna þrotabús Fons á hendur Pálma Haraldssyni, Jóhannesi Kristinssyni og eignarhaldsfélagi þeirra, Matthews Holding S.A. í Lúxemborg, vegna arðgreiðslunnar sem þeir greiddu sér árið 2007. Alls ætlar skiptastjórinn, Óskar Sigurðsson, að höfða ellefu riftunarmál vegna lána og arðgreiðslna sem áttu sér stað hjá Fons síðustu tvö árin fyrir þrot félagsins.

Í samantekt stefnunnar segir að ársreikningur Fons fyrir árið 2006 hafi verið „verulegum annmörkum háður og í andstöðu við lög og reikni skilareglur“. Samkvæmt honum var langstærsti hluti hagnaðar Fons á árinu 2006 sagður koma frá dóttur- og hlutdeildarfélögum þess. Engar upplýsingar lágu þó fyrir um afkomu þeirra í ársreikningnum auk þess sem í mörgum tilvikum var byggt á stöðu félaganna líkt og hún var í árslok 2005. Ársreikningurinn var ekki endurskoðaður þar sem endurskoðendur félagsins treystu sér ekki til að skrifa upp á hann.

Arðgreiðslan gjafagjörningur

Því segir orðrétt í stefnunni að „framangreindur ársreikningur er því í raun markleysa, sem ekki var unnt að samþykkja af hálfu stjórnar eða aðalfundar Fons hf. Því síður gat ársreikningurinn verið grundvöllur úthlutunar og greiðslu arðs úr félaginu“.

Skiptastjóri telur því að um gjafagerning hafi verið að ræða og að hann hljóti að vera riftanlegur. Farið er fram á að Matthews Holding greiði þrotabúinu arðgreiðsluna til baka auk dráttarvaxta. Pálmi Haraldsson hefur þegar lýst því yfir opinberlega að engar eignir séu í Matthews Holding. Sé það rétt fer skiptastjórinn fram á að Pálma og Jóhannesi verði gert að bera ábyrgð á endurgreiðslu arðgreiðslunnar.

Ítarlega er fjallað um málefni Fons í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .