Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir nýútgefna ársskýrslu Íslandspósts og segir upplýsingagjöf um afkomu einstakra rekstrarþátta áfram takmarkaða og ógegnsæja. Erfitt sé að sannreyna, út frá þeim upplýsingum sem þar fram komi, að Íslandspóstur fari að ákvæðum póstlaga og samkeppnislaga um aðgreiningu einkaréttar og samkeppnisrekstrar. FA, undir stjórn Ólafs Stephensen, og aðildarfélög þess á borð við Póstmarkaðinn hafa löngum gagnrýnt það sem þau kalla beina samkeppni ríkisfyrirtækis við einkafyrirtæki og framsetningu árskýrslna Íslandspósts. Íslandspóstur hefur á móti sakað félagið um að fara offari í ásökunum sínum.

Afkoma einkaréttar sýnd verri en hún er í raun

Í samantekt frá FA segir að lögboðið yfirlit um afkomu starfsþátta Íslandspósts sé nú birt opinberlega í ársskýrslunni en það sé ekki hluti af ársreikningnum sjálfum og því ekki háð eftirliti endurskoðenda. FA bendir á að samkvæmt yfirliti sem Póst- og fjarskiptastofnun birti í desember síðastliðnum vegna bókhaldslegs aðskilnaðar Íslandspósts árið 2015, en sams konar yfirlit fyrir árið 2016 er nú birt í ársskýrslunni, segi: „Í gjöldum einkaréttar er meðtalinn sá kostnaður sem einkarétti er heimiltað greiða niður vegna alþjónustu sem ekki fellur undir einkarétt í samræmi við 2. málsl. 6. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002.“ „Með öðrum orðum er afkoma einkaréttar sýnd verri en hún er í raun, en hvergi kemur fram í ársskýrslunni hver niðurgreiðsla einkaréttarins á samkeppnisrekstri innan alþjónustu er,“ segir í tilkynningu FA.

Blasir við að rekstrinum er haldið gangandi af einkaréttinum

Félagið vísar jafnframt til þess að í ársskýrslu Íslandspósts sé ekki sýnt hvernig afkoma „eignarekstrar“ skiptist niður á starfsþætti, en undir eignarekstur fellur t.d. rekstur dótturfélaga Íslandspósts, sem eðli málsins samkvæmt falla undir samkeppnisrekstur. Þá sé tap á samkeppnisrekstri Íslandspósts, eftir að kostnaður hans hefur að hluta verið færður á einkaréttinn, yfir 600 milljónir króna. „Niðurstaðan er sú að ársreikningur Íslandspósts er, eins og undanfarin ár, villandi og engin leið er að átta sig á vægi mismunandi rekstrarþátta. Það blasir hins vegar við að rekstrinum er haldið gangandi af einkaréttinum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.