Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2013 var samþykktur í borgarstjórn í dag, 13. maí.  Samstæða Reykjavíkurborgar var rekin með 8.4 milljarða hagnaði og skuldir voru greiddar niður um 35 milljarða á síðasta ári.

„Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var jákvæð um tæpa 8.4 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 7.7 milljarða króna. Rekstrarniðurstaðan er því 711 m.kr. betri en gert var ráð fyrir.  Helstu ástæður má rekja annars vegar til gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga hjá A-hluta og hins vegar til áhrifa fjármagnsgjalda hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar vegur þyngst gengismunur og verðmæti innbyggðra afleiða.  Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um tæpa 23.6 mkr sem er rúmum 4 milljörðum króna betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þá segir að skuldir samstæðunnar hafi lækkað um 35 milljarða króna á tímabilinu. Þar af lækkuðu langtímaskuldir um rúma 29 milljarða króna, voru tæpir 260 milljarðar króna í ársbyrjun en stóðu í 231.5 milljarði í árslok.