*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 23. júní 2018 17:03

Árstíðasveifla krónunnar mýta

Gengi íslensku krónunnar hefur veikst um 10% gagnvart dollar frá aprílbyrjun. Hagfræðingur segir árstíðasveiflur krónunnar eiga við lítil rök að styðja.

Ástgeir Ólafsson
Evran hefur veikst töluvert gagnvart dollarnum í kjölfarið á vaxtahækkunum vestanhafs.
european pressphoto agency

Gengi íslensku krónunnar hefur veikst um rúm 5% frá því í byrjun apríl sé miðað við gengisvísitölu krónunnar. Hefur krónan veikst um 4% gagnvart evru, 3,6% gagnvart sterlingspundi og um ríflega 4% gagnvart sænskri krónu. Mestu munar þó um að krónan hefur veikst um rúm 10% gagnvart dollar á sama tímabili.

Að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins á gjaldeyrismarkaði skýrist sú hækkun að miklu leyti af því að gengi evru hefur veikst um ríflega 6% gagnvart dollar. Þá hafa neikvæðar tölur úr ferðaþjónustunni einnig haft veikingaráhrif á krónuna.

Vaxtahækkanir í Bandaríkjunum hafa áhrif

Stóran hluta veikingar evru gagnvart dollar má rekja til þess að vaxtamunur milli Bandaríkjanna og Evrópu er að aukast. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hækkað stýrivexti tvisvar á síðustu þremur mánuðum auk þess sem peningastefnunefnd bankans hefur gefið það út að hún hyggist hækka vexti tvisvar sinnum í viðbót á þessu ári. Á sama tíma hefur peningastefnunefnd Seðlabanka Evrópu haldið vöxtum í 0% og hefur nefndin gefið það út að hún muni ekki hækka vexti fyrr en í september á næsta ári.

Engar árstíðabundnar sveiflur 

Það hefur oft verið sagt að sveiflur í gengi krónunnar fylgi árstíðum og þá sérstaklega að krónan styrktist yfir sumarmánuðina meðan ferðamannafjöldinn eykst. Þó að það megi deila um hvort sumarið sé á annað borð komið má sjá á gengisþróun undanfarinna missera að þetta á við lítil rök að styðjast.

„Ef maður skoðar gengi krónunnar síðustu ár eða jafnvel áratugi þá er ekki að sjá neina  tilhneigingu að hún styrkist eða veikist frekar á ákveðnum árstíðum,“ segir Konráð S.  Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs. „Í fyrra veiktist krónan yfir sumarmánuðina og þannig virðist það vera í ár líka, allavega það sem komið er. Það sem ég held að verið sé að rugla saman í þessu sambandi er það að vegna þess að gjaldeyrisflæðið vegna útflutningsgreinanna er sveiflukennt þá er dregin sú ályktun að krónan sé sveiflubundin. Aðrir aðilar á gjaldeyrismarkaði vita þetta hins vegar og bregðast við því,“ segir Konráð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is