„Ég setti fram þá ósk í starfslokasamningnum að ég tæki að mér að ritstýra Brimfaxa,“ segir Arthur Örn Bogason. Hann var aðalhvatamaðurinn að Landssambandi smábátaeigenda og boðaði til undirbúningsfundar um stofnun þess á þrítugsafmæli sínu þann 21. ágúst 1985. Hann settist í stól formanns sambandsins og sat þar í 28 ár eða fram í október í fyrra en þá ákvað hann að gefa ekki lengur kost á sér. Fyrir þá sem ekki til þekkja er Brimfaxi tímarit Landssambands smábátaeigenda.

Arthur segir í samtali við Viðskiptablaðið alla tíð hafa haft áhuga á skrifum og útgáfu. Hann hafi gefið út skólablöð í gagnfræðaskólanum á Akureyri og bílablaðið Þeysi eftir útskrift. Tvö tölublöð koma út af Brimfaxa á ári hverju. Arthur er nú að safna efni í næsta blað sem verður það fyrsta í hans ritstjórn. Blaðið kemur sem fyrr út fyrir sjómannadaginn í júní.