Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðsins, hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Nýja Glitnis banka hf. að annast ráðgjöf og formlegt ferli sem lýtur að öflun hlutafjár fyrir félagið.

Bankinn mun á næstu dögum auglýsa eftir tilboðum í nýtt hlutafé Árvakurs, sem gefið verður út eftir að núverandi eigendur færa niður eign sína í félaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Glitni.

Þar kemur fram að söluferlið verður opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylla skilyrði til þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti .

Þá kemur fram að áhugasamir fjárfestar þurfa að fylla út trúnaðaryfirlýsingu og skila henni til Fyrirtækjaráðgjafar Nýja Glitnis fyrir kl. 16:00, föstudaginn 30. janúar nk.  Gögn verða afhent á tímabilinu 28.-30.  janúar  með rafrænum hætti á netfang sem fjárfestar tilgreina í trúnaðaryfirlýsingu.

Þá er gert ráð fyrir að óskuldbindandi tilboðum sé skilað til Nýja Glitnis miðvikudaginn 4. febrúar 2009.

„Þeim fjárfestum, sem leggja fram hæstu tilboðin, verður boðið til áframhaldandi þátttöku í söluferlinu og fá þá drög að kaupsamningi,“ segir í tilkynningunni.

Þá fá fjárfestar aðgang að nánari upplýsingum um starfsemi og fjárhag fyrirtækisins, en þeim ber svo að skila inn skuldbindandi tilboðum í síðasta lagi þriðjudaginn 17. febrúar.