Enn er unnið að framtíðarlausn í fjármálum Árvakurs og segir í tilkynningu frá því í dag að gert sé ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki fyrir lok vikunnar.

Gert er ráð fyrir því að niðurstaðan feli í sér endurfjármögnun félagsins með nýju hlutafé og að núverandi hlutafé verði fært niður í núll.

Haft er eftir stjórnarformanni Árvakurs, Þór Sigfússyni, í tilkynningu að meginmarkmiðið sé að tryggja hnökralausa útgáfu Morgunblaðsins og mbl.is.

Í sömu tilkynningu segir að Árvakur hafi átt við alvarlegan lausafjárvanda að stríða og að skuldir félagsins hafa hækkað verulega með gengisfalli krónu.  Áhersla sé lögð á það af hálfu Nýja Glitnis og Árvakurs að endurfjármögnun félagsins fari fram í opnu og gegnsæju ferli.

„Af hálfu Árvakurs verður þetta verkefni unnið undir forystu stjórnenda félagsins og með það að markmiði að breikka eignarhald á félaginu."