Árvakur selur húsnæði og lóð félagsins í Kringlunni fyrir 2,1 milljarð króna Stjórn Árvakurs hf., sem gefur út Morgunblaðið, hefur tekið ákvörðun um að selja húsnæði og lóð félagsins við Kringluna og flytja alla starfsemi þess að Hádegismóum þar sem ný prentsmiðja Árvakurs er. Þetta kom fram í frétt í Morgunblaðinu í morgun.

Haft er eftir Hallgrími B. Geirssyni, framkvæmdastjóri Árvakurs, í Morgunblaðinu í morgun að við söluumleitanir á eldri prentsmiðju félagsins hafi komið í ljós áhugi á kaupum á öllum fasteignum þess í Kringlunni, þar með töldu skrifstofuhúsnæði. Árvakur hóf starfrækslu nýrrar prentsmiðju í Hádegismóum 2 í Reykjavík í októbermánuði sl.

Hallgrímur segir í Morgunblaðinu að tvö tilboð hafa borist í eignirnar og ákvað stjórn Árvakurs að ganga að tilboði Klasa hf. fasteignafélags á fundi sínum í gær. Í tilboði fasteignafélagsins fólst jafnframt að byggt yrði nýtt skrifstofuhúsnæði fyrir Árvakur í Hádegismóum, og er gert ráð fyrir því að nýtt húsnæði verði afhent fyrir páska árið 2006. Þar með verður öll starfsemi Árvakurs á einum stað í Hádegismóum 2.

Hallgrímur segir ljóst að þessi ráðstöfun styrki efnahag Árvakurs umtalsvert. Félagið mun greiða upp verulegan hluta skuldbindinga sinna vegna nýrrar prentsmiðju, sem aftur muni létta á rekstri félagsins og um leið styrkja samkeppnisstöðu Morgunblaðsins.