Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, uppfyllir ekki skilyrði í lánasamningi við Íslandbanka sem kveður á um eiginfjár- og rekstarhagnaðarhlutfall. Samstæðan hefur því átt í viðræðum við bankann um að endursemja um fjármögnun sína. Í ársreikningi Árvakurs, sem skilað var inn til ársreikningaskráar 1. september, segir að rekstarhæfi félagsins ráðist af niðurstöðu ofangreindra viðræðna. Árvakur á og rekur Morgunblaðið og prentsmiðjuna Landsprent.

Afkoma Árvakurs batnaði töluvert í fyrra þegar rekstartap félagsins var 277 milljónir króna. Það er um 390 milljónum krónum minna en rekstartap þess var fyrir árið 2009. Heildartap Árvakurs í fyrra nam 329 milljónum króna.  Hlutafé Árvakurs var aukið um 240 milljónir króna á árinu 2010 til að mæta miklum taprekstri á árinu 2009.

Rekstartekjur jukust lítið en hagræðing náðist

Rekstartekjur voru 2,6 milljarðar króna. Þær tekjur jukust þó einungis 33 milljónir króna í fyrra, eða um rúmt 1%. Rekstartekjur koma aðallega frá áskriftar- og auglýsingasölu. Mesta hagræðingin í rekstri félagsins átti sér stað í starfsmannahaldi, en laun og annar starfsmannakostnaður lækkaði um 306 milljónir króna í fyrra og meðalfjölda starfa fækkaði úr 210,7 í 187. Eignir Árvakurs voru metnar á 2,9 milljarða króna um síðustu áramót en skuldir samsteypunnar voru 2,2 milljarðar króna. Þær eru að langstærstu leyti við Íslandsbanka.

Í ársreikningi Árvakurs vekja endurskoðendur félagsins athygli á skýringu í reikningnum sem fjallar um rekstarhæfi félagsins. Í skýringunni stendur að „Forráðamenn samstæðunnar hafa átt í viðræðum við Íslandsbanka þar sem samstæðan uppfyllir ekki lengur skilyrði í lánasamningi við bankann sem kveður á um eiginfjár- og rekstrarhagnaðarhlutfall. Viðræðurnar ganga út á að endursemja um fjármögnun samstæðunnar, en ekki er fyrirséð hver niðurstaðan verður. Lánið hefur verið í frystingu frá því samningaviðræður hófust og var uppsöfnuð ógreidd afborgun vegna ársins 2010 rúmar 69 milljónir króna sem bætt var við höfuðstólinn og er með í skiptingu lánsins niður á afborganir í töflunni hér fyrir ofan. Rekstrarhæfi félagsins ræðst af niðurstöðu framangreindra viðræðna við Íslandsbanka“.

Samkvæmt ársreikningnum á Árvakur að greiða tæpar 100 milljónir króna á ári til lánadrottna sinna á árunum 2011-2015. Eftirstöðvar skulda félagsins við lánadrottna eftir það tímabil eru, samkvæmt reikningnum, 1,2 milljarðar króna.

Þrír eigendur eiga 67% hlut

Þórsmörk ehf. keypti Árvakur í febrúar 2009. Skuldir Árvakurs voru færðar niður um 4,7 milljarða króna í tengslum við þá sölu. Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að í ársreikningi Þórsmerkur, sem skilað var inn til ársreikningaskráar  1. september síðastliðinn, komi fram að hluthafar félagsins séu tíu.

Stærsti eigandi félagsins, með 27% hlut, er Hlynur A ehf., félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda útgerðarfélagsins Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Tvö félög, Áramót ehf. og Krossanes ehf., eiga sitthvor 20% hlutinn. Eigandi Áramóta er Óskar Magnússon en eigandi Krossaness er Samherji á Akureyri.  Því eiga eigendur tveggja stórra útgerða á Íslandi samtals 47% í Morgunblaðinu.