Heildverslunin Árvík í Garðabæ, sem stofnuð var árið 1983 og veiðiverslunin Veiðiflugur á Langholtsvegi hafa sameinast og verða reknar undir eignarhaldsfélaginu Árvík veiðivörur . Veiðiverslunin verður áfram rekin undir nafni Veiðiflugna en með sameiningunni, sem varð í byrjun mars, hefur Árvík fært vörubirgðir sínar í húsnæðið á Langholtsvegi og mun annast heildsöludreifingu þaðan.

Veiðiverslunin Veiðiflugur var stofnuð af Hilmari Hanssyni árið 2009 en árið 2016 tók Friðjón Mar Sveinbjörnsson við rekstrinum. Friðjón Mar verður framkvæmdastjóri eignarhaldsfélagsins Árvík veiðivörur og Árni Árnason, sem stofnaði Árvík, verður stjórnarformaður.

„Ég vænti mikils af Friðjóni“ segir Árni. „Friðjón hefur sannað sig í rekstri Veiðiflugna og hefur rekið fyrirtækið með eftirtektarverðum árangri.“

Eins og áður sagði tók Árvík til starfa á árinu 1983 og var ein af stærri heildverslunum landsins. Byggingavörusvið Árvíkur var selt Húsasmiðjunni þegar Árvík flutti í Garðabæinn í byrjun árs 2001. Stærstur hluti efnavörsviðs Árvíkur var svo seldur N1 á árinu 2016. Veiðivörurnar voru lengst af aukabúgrein þar til hin síðust ár þegar þjónusta við veiðivöruverslanir og veiðimenn var orðin aðalstarfsemin.

„Með tilkomu viðskiptasambanda Árvíkur verður til öflugt fyrirtæki sem mun öðlast verðugan sess í hugum stangveiðimanna“ bætti Friðjón við. „Við hlökkum til sumarsins og bjóðum veiðimenn velkomna“ segir Friðjón.


Í tilkynningu segir að í kjölfar sameiningarinnar verði vefverslunin veidiflugur.is endurhönnuð og efld. Helstu vörumerki Árvíkur og Veiðiflugna eru: Scott , Loop , Guideline og Echo flugustangir; Fishpond-töskur, vesti og annan veiðibúnað; Kamasan-önglar og taumefni; vörur til fluguhnýtinga frá Griffin , Loon , Marryat , Stonfo og fleirum; fluguhjól frá Einarsson, Hatch , Loop , Guideline , Nautilus og fleirum; vöðlur og skó frá Aquaz , Korkers og Scierra ; flugulínur frá ARC , Guideline , Loop og Northern Sport; Frog Hair , Loop og Maxima-tauma og taumefni; fatnað frá Aquaz , Fishpond , Guideline , Loop , Patagonia og fleirum; Richard Wheatley og Vac rac-stangarhaldara.