Prófessorarnir Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen hafa verið skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands. Þær munu taka sæti við réttinn 23. nóvember næstkomandi. Eftir þetta verða fjórir karlkyns dómarar við réttinn og þrjár konur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Aðrir umsækjendur um stöðurnar tvær voru landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð Þór Björgvinsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Þorgeir Ingi Njálsson.

Ása Ólafsdóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1996 og framhaldsnámi í lögfræði frá Cambridge-háskóla árið 2000. Hún starfaði að námi loknu sem lögmaður um árabil og hefur flutt fjölda mála fyrir dómstólum. Hún öðlaðist málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti Íslands árið 2005. Frá árinu 2008 hefur Ása lengst af gegnt fullu starfi við lagadeild Háskóla Íslands, þar af sem dósent frá árinu 2012 og prófessor frá 2018. Þá hefur hún sinnt umfangsmiklum fræðastörfum, einkum á sviði fjármunaréttar og réttarfars. Ása var settur dómari við Landsrétt á vormánuðum þessa árs og að auki hefur hún sinnt fjölmörgum öðrum störfum, svo sem formennsku í gjafsóknarnefnd og óbyggðanefnd, og átt aðkomu að samningu fjölda lagafrumvarpa.

Björg Thorarensen lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991 og framhaldsnámi í lögfræði frá Edinborgarháskóla árið 1993. Hún starfaði í dómsmálaráðuneytinu um árabil að námi loknu, þar af sem skrifstofustjóri um sex ára skeið. Frá árinu 2002 hefur Björg verið prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og samhliða því sinnt umfangsmiklum fræðastörfum, einkum á sviði stjórnskipunaréttar og mannréttinda, en einnig á sviði þjóðaréttar, persónuverndarréttar, stjórnsýsluréttar og sakamálaréttarfars. Björg var settur dómari við Landsrétt 1. janúar – 30. júní 2020 og að auki hefur hún sinnt fjölmörgum öðrum störfum, þ. á m. sem umboðsmaður ríkisstjórnar Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu og sem formaður stjórnar Persónuverndar um árabil.

„Ég hef ákveðið að leggja til við forseta Íslands að Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen verði skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands frá 23. nóvember 2020. Ég kynnti þessa ákvörðun mína á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Hér er verið að stíga mikilvægt skref í jafnræðisátt þar sem nú verða 3 af 7 dómurum við réttinn konur. Það er fagnaðarefni að slíkt gerist á 100. afmælisári Hæstaréttar Íslands,“ ritar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Facebook.

Í drögum að áliti dómnefndar um hæfni umsækjenda um embættin tvö var dómurunum fjórum raðað skör ofar. Eftir athugasemdir umsækjenda var matinu breytt á þann veg að öll sex þóttu jafnhæf til starfans.