Dregin er upp dökk mynd af starfsháttum Samherja í Namibíu í þættinum Kveik , sem sýndur var á RÚV í kvöld. Birt voru skjöl og tölvupóstar frá Wikileaks um starfshættina en gögnin eru upphaflega komin frá Jóhannesi Stefánssyni, fyrrverandi verkefnastjóra Samherja í Namibíu.

Samkvæmt gögnunum á Samherji að hafa greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu hundruð milljóna króna, jafnvel hátt í 1,5 milljarð, í þeim tilgangi að komast yfir verðmætan kvóta í fiskveiðilögsögu landsins. Þá á Samherji að hafa notfært sér skattaskjól til að koma hagnaði úr landi.

Í Kveik var greint frá því að þrjár eftirlitsstofnanir í Namibíu, þar á meðal spillingarlögreglan ACC , hefðu undanfarinn mánuð rannsakað starfshætti Samherja og meinta mútuþægni. Jóhannes er í hringiðu þessarar rannsóknar eftir að hann gaf sig fram og hefur honum verið tryggð staða uppljóstrara gagnvart namibískum stjórnvöldum.

Héraðssaksóknari hyggst skoða málið

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari greinir frá því í samtali við Vísi í kvöld að embættið muni taka mál Samherja í Namibíu til skoðunar vegna þess sem fram kom í Kveik. Segir hann þungamiðju málsins liggja hjá stjórnvöldum í Namibíu og það sem yrði aðhafst hér á landi yrði gert í samvinnu við namibísk yfirvöld eða þartilbær yfirvöld. Í seinni fréttatíma RÚV í kvöld kom fram að Jóhannes hefði mætt í skýrslutökur hjá héraðssaksóknara í morgun.

Í gærkvöldi, eða sólarhring áður en þátturinn var sýndur á RÚV, sendi Samherji frá sér tilkynningu .