Fasteignafélagið Ásbrú ehf., sem fjárfest hefur í fasteignum við Keflavíkurflugvöll, hagnaðist um 1,6 milljarða króna á síðasta ári samanborið við 320 milljóna tap árið 2020. Hagnaðinn í fyrra má einkum rekja til 2,1 milljarðs króna matsbreytingar fjárfestingareigna.

Rekstrartekjur fasteignafélagsins námu rúmum milljarði króna en þar af voru leigutekjur um 443 milljónir og söluhagnaður fastafjármuna 601 milljón. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst úr 245 milljónum í 461 milljón á milli ára.

Eignir Ásbrúar voru bókfærðar á 11 milljarða króna í árslok 2021 og eigið fé var um 3,4 milljarðar.

Stærstu hluthafar Ásbrúar eru Omega, sem er í eigu Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, Klettar fjárfestingar, í eigu Sigurbjörns Þorkelssonar og Aðalheiðar Magnúsdóttur, og Ursus, fjárfestingarfélags Heiðars Guðjónssonar.

Lykiltölur / Ásbrú

Hagnaður 1,6 milljarðar
Matsbreyting 2,1 milljarður
Eignir 11 milljarðar
Eigið fé 3,4 milljarðar

Fréttin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 22. september 2022.