Greiningardeildir hafa í gegnum tíðina þurft að sýna fram á sjálfstæði sitt innan bankanna og standa með greiningum sínum sem hafa stundum verið gagnrýndar. Ásdís Kristjánsdóttir, sem á haustmánuðum nýliðins árs tók við sem forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að svipaðar starfsreglur eigi við um efnahagssvið SA og sjálfstæði þess.

„Mikilvægur útgangspunktur er að efnahagssvið SA hafi sjálfstæði innan samtakanna. Ef sviðið hefur ekki sjálfstæði þá tel ég að það sé erfitt að koma fram með trúverðugar greiningar. Þannig að það verður mikil áskorun að tryggja stöðu sviðsins innan samtakanna, kannski ekkert ósvipað og með greiningardeildina,“ segir Ásdís.

Greiningardeildir breyttust eftir hrun

Hún ræðir um heima og geima í tímaritinu Áramótum, sem Viðskiptablaðið gaf út um síðustu áramót. Þar ræðir hún m.a. um breytingar sem hafa orðið á greiningardeildum fyrir og eftir hrun. Ásdís vann einmitt í sjö ár hjá Kaupþingi og Arion banka og var þar af forstöðumaður greiningardeildar bankans í þrjú ár.

„Eftir hrun breyttust áherslur deildarinnar og nálgun okkar á efninu þar sem við lögðum fremur áherslu á að koma fram með ítarlegar og skemmtilegar greiningar fremur en að keppast við að gefa daglega út frá okkur efni. Þetta var klárlega rétt skref hjá okkur á sínum tíma og ég sé ekki betur en að aðrar greiningardeildir séu að fikra sig í sömu átt.

Ítarlega er rætt við Ásdísi í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.