Fyrstu aðgerðirnar í Klíníkinni, nýrri læknamiðstöð í Ármúla, voru framkvæmdar fyrir um mánuði síðan. Fyrirtækið EVA hefur leitt þróun Klíníkurinnar og á um 15% hlut í henni.

Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnarformaður EVU, að sérstaða Klíníkurinnar liggi í því að í fyrsta sinn geti sérfræðilæknar framkvæmt aðgerðir sem krefjast næturgistingar utan spítalanna. Því sé hægt að framkvæma stærri aðgerðir en á öðrum minni skurðstofum á borð við Orkuhúsið, Lækningu, Glæsibæ og Domus. Þó sé ekki ætlunin að framkvæma aðgerðir sem krefjast lengri legu inni á spítala eða nálægðar við gjörgæslu.

„Meirihluti sjúklinganna sem fer í gegnum Klíníkina mun líklega fara heim fljótlega eftir aðgerð en kosturinn er sá að hér getur sjúklingurinn gist með því að fara með lyftu úr vöknun og beint inn á hjúkrunarherbergi.  Þau eru frábrugðin hefðbundnum hótelherbergjum að því leiti að þau eru með hjúkrunarvakt og í rúmgaflinum er súrefni og sog.

Við erum því nokkurn veginn mitt á milli annars vegar Landspítalans sem er með stærstu aðgerðirnar og sjálfstæðu skurðstofanna úti í bæ sem hafa annast minni aðgerðir en ekki geta boðið upp  á það að sjúklingurinn geti gist.“

Geti valið óháð efnahag

Hvers vegna ákvaðstu að fara í heilbrigðisgeirann?

„Valfrelsi í velferðarþjónustu er einhvern veginn búið að vera mitt hjartans mál frá því ég var sautján, átján ára. Kannski er það bakgrunnurinn. Ég ólst upp í Ólafsvík, svo flutti ég til Svíþjóðar og Noregs og síðan Akraness og fór mjög mikið á milli ólíkra samfélaga. Ég upplifði ólíka skóla, ég upplifði mismunandi heilbrigðisþjónustu. Ég upplifði að hlutirnir gátu verið svo mismunandi í ólíkum samfélögum.

Einhvern veginn fór ég mjög mikið að pæla í því að mér fannst að einstaklingarnir, fólkið, ætti að geta valið um þá þjónustu sem það þurfti óháð efnahag. Fyrst fór ég að þróa þessar pælingar í menntamálum og síðan í heilbrigðismálum meðal annars með stefnumótun um hvað væri hægt að gera á Íslandi svo fólk gæti haft meira val um þjónustu. Fólkið sjálft yrði að fá að ráða einhverju en ekki bara vera eins og ósjálfbjarga börn sem væru send á milli aðila í kerfinu og hefðu ekkert um sín mál að segja.“

Ítarlegt viðtal við Ásdísi er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .