Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ hefur verið ráðin forstjóri BYKO frá og með 27. maí næst komandi. Undir BYKO heyra samnefndar byggingavöruverslanir en einnig ELKO, Intersport og Húsgagnahöllin.
Jón Helgi Guðmundsson, sem verið hefur forstjóri BYKO frá 1984 og stýrt fyrirtækinu í 43 ár, verður áfram forstjóri Norvíkur-samstæðunnar. Undir hana heyra BYKO og fleiri fyrirtæki, svo sem Kaupás.
"Okkur er mikill fengur í að fá Ásdísi Höllu til liðs við okkur og erum mjög spennt að vinna með henni," segir Jón Helgi í samtali við Viðskiptablaðið. "Það hefur verið langur aðdragandi að þessu hjá mér. Ég þurfti að létta af mér verkefnum. Við höfum verið í mikilli uppbyggingu erlendis, í Lettlandi, Bretlandi og Rússlandi, og ég get vonandi sinnt því eitthvað meira hér eftir. Ég er alls ekki hættur þótt verkaskiptingin verði núna með þessum hætti."