Ásdís Halla Bragadóttir hyggst gefa kost á sér í fyrsta sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Efnt verður til prófkjörs hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík um miðjan mars.

Þegar hafa tveir af forystumönnum sjálfstæðismanna í Reykjavík gefið það út að þeir fari ekki fram í vor, þeir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksisn og Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Geir gefur ekki kost á sér vegna illkynja æxlis sem hann hefur greinst með og Björn sagði á fundi sjálfstæðismanna fyrir helgi að þeir sem eldri væru ættu að víkja fyrir yngri frambjóðendum.

Líklega má telja að Guðlaugur Þór Þórðarson stefni á efstu sætin í Reykjavík, en hann gaf kost á sér í annað sætið fyrir síðustu þingkosningar og atti þar með kappi við Björn Bjarnason.