Frelsisverðlaun SUS voru veitt við hátíðlega athöfn í Valhöll í kvöld. Var þetta í tólfta sinn sem verðlaunin voru veitt en stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) veitir verðlaunin. Ingvar S. Birgisson, formaður SUS, ávarpaði fundinn og veitti verðlaunin f.h. stjórnarinnar.

Að venju voru verðlaunin veitt einum einstaklingi og einum lögaðila. Báðir verðlaunahafar í ár eiga það sameiginlegt að berjast fyrir auknu atvinnufrelsi.

Sá einstaklingur sem hlaut verðlaunin í ár er Ásdís Halla Bragadóttir fyrir áralanga baráttu sína fyrir auknu valfrelsi í heilbrigðis- og menntamálum. Sem bæjarastjóri Garðabæjar studdi hún við sjálfstæðan rekstur skóla í sveitarfélaginu. Hefur það leitt til þess að skólakerfið í Garðabæ er fjölbreyttara, sveigjanlegra og þjónustar nemendur betur en ella. Þá hefur Ásdís verið áberandi í umræðunni á þessu ári um baráttu Kliníkurinnar í Ármúla fyrir sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu. Slíkur rekstur bætir þjónustu við sjúklinga, styttir biðraðir og nýtir skattfé betur.

Sá lögaðili sem hlaut verðlaunin í ár er Hvalur hf., en Kristján Loftsson, forstjóri fyrirtækisins, tók við verðlaununum. Hvalur hf. hlaut verðlaunin fyrir baráttu sína fyrir hvalveiðum á Íslandsmiðum. Hvalveiðar fela í sér mikilvægt atvinnufrelsi en Hvalur hf. hefur í fjölmörg ár barist fyrir því að veiðar á hvölum séu leyfðar, enda er um sjálfbæra nýtingu að ræða sem styðst við vísindaleg gögn.