Ásdís Halla Bragadóttir segist ekki ætla að gefa kost á sér til þingmennsku en um tíma kom til greina hjá henni að bjóða sig fram í efstu sætin í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík um miðjan mars nk. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var hún komin á fremsta hlunn með að tilkynna um framboð um helgina. Það breyttist hins vegar skyndilega.

Ásdís Halla á og rekur fjárfestingar- og rekstrarfélagið EVA consortium, ásamt Ástu Þórarinsdóttur. „Ég ætla að reka fyrirtækið og halda mér við það að vera þátttakandi í atvinnulífinu," segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hætti í pólitík fyrir fjórum árum og hafði ekki leitt hugann að því að byrja aftur í stjórnmálum en eftir mikinn þrýsting í síðustu viku lofaði ég að hugsa málið. Ég gerði það í nokkra daga en komst að þeirri niðurstöðu að ég ætlaði ekki að gefa kost á mér í prófkjöri," segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.