Tölvuleikjafyrirtækið Parity hefur ráðið Ásdísi Örnu Gottskálksdóttur sem framkvæmdarstjóra rekstrarsviðs (COO) fyrirtækisins. Ásdís hefur verið stjórnarformaður Parity í tvö ár og þekkir því vel til starfseminnar.

Ásdís vann áður sem forstöðumaður þjónustusviðs hjá fyrirtækinu Five Degrees, sem sérhæfir sig í þróun á hugbúnaðarlausnum fyrir fjármálamarkaðinn. Hún er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og er núna í MBA námi hjá Háskólanum í Reykjavík.

Tölvuleikjafyrirtækið Parity var stofnað árið 2017 af Maríu Guðmundsdóttur, tölvuleikjaframleiðanda og fyrrverandi starfsmanni CCP. Parity var stofnað með það langtíma markmið að auka fjölbreytileika í tölvuleikjageiranum og tölvuleikjunum sjálfum. Parity er að þróa tölvuleikinn, Island of Winds, sem tekur innblástur frá íslenskri náttúru, íslenskri galdrasögu og þjóðsögum.